Smugan » Friðrik Dagur Arnarson http://smugan.is Vefrit um pólítík og mannlíf Tue, 30 Apr 2013 22:00:37 +0000 is-IS hourly 1 http://wordpress.org/?v=3.4.2 Og enn bulla þeir http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/ http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/#comments Fri, 26 Apr 2013 16:12:38 +0000 tka http://smugan.is/?p=99577 Það ætlar enginn endir að verða á tilraunum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna til að afvegaleiða umræðuna um Rammaáætlun. Báðir flokkarnir hafa lýst því yfir að þeir ætli að rjúka til og breyta niðurstöðum hennar um leið og þeir fá völd til þess. Ástæða sem þeir gefa upp er að áætlunin hafi verið tekin úr faglegum farvegi. Kannski vita þeir ekki hvað það þýðir eða kannski er þeim bara sama um sannleikann í þessu máli. Við skulum því fara yfir þetta einu sinni enn, þeim til upplýsingar og lesendum til glöggvunar á þeim blekkingum sem er beitt.

Rammaáætlun var faglegt ferli. Faglegheitin varðandi áætlunina fólust í því verkferli sem ákveðið var. Í því áttu að taka þátt hagsmunaaðilar og vísindamenn, að vísu ekki margir hugvísinda- eða félagsvísindamenn. Vinnan þessa fólks átti að leiða að niðurstöðum eftir ákveðnum ferli.

Fagmenn sem fjölluðu um virkjanahugmyndir Rammaáætlunar unnu í faghópum. Hóparnir voru 4 og gerðu hver um sig ákveðna röðun sem fór síðan til verkefnisstjórnar sem átti að vinna úr þessu. Í verkefnisstjórn voru fulltúar stjórnmálamanna, stofnana og hagsmunaaðila. Þeir áttu að raða í flokka. Þó þar hafi allir verið fagmenn eða fræðimenn á ákveðnum sviðum var verkefnisstjórnin fyrst og fremst samsafn hagsmuna sem átti að reyna að komast að málamiðlun innan hópsins – vísindalegt eða hvað? Þessi hópur vann þó, er upp var staðið, ekki verkið sjálfur heldur sérstakur hópur þar sem hluti verkefnisstjórnar og nokkrir utanaðkomandi ákváðu leikreglur og röðuðu síðan. Faglegt? Síðan höfðu allir stjórnmálaflokkar samþykkt að almenningur ætti að fá aðgang að ákvarðanaferlinu og það var gert. Tekið var tillit til athugasemda og nýrra upplýsinga. Að fylgja þessum leikreglur er kallað ófaglegt. Merkilegt! Breytingar frá niðurstöðum flokkunarhópsins voru allar í átt til varúðar, í samræmi við anda varúðarreglu og á grunni nýrra upplýsinga. Faglegt – og heiðarlegt líka. Lokagerð verksins var því tilraun til að gera niðurstöðuna faglega aftur því þar með var reynt að fylgja leikreglum sem Alþingi hafði samþykkt þegar út af þeim hafði verið vikið á ófaglegan hátt.

Þessu vilja þessir tveir flokkar breyta nú af því þeir eru pólitískt ósáttir við niðurstöðuna. Faglegt? Og það er ekki síður merkilegt að það sem þeir kalla faglegt er niðurstaða vinnu sem tekin var út úr faglega ferlinu sem búið var að ákveða fyrirfram og setja í erindisbréf verkefnisstjórnar. Það er margbúið að benda á þessar staðreyndir en söngurinn er endurtekinn í síbylju því Göbbelskur áróður gengur út á að endurtaka bullið svo oft að menn meðtaki það sem sannleika. Heiðarlegt? Hróp um faglegheitin eru notuð sem sauðargæra úlfsins og fullyrðingin um að orkuvinnsla á Íslandi gefi bara græna orku notuð til að krydda. Þá skiptir heldur engu máli að færustu jarðhitasérfræðingar okkar sem ekki vinna hjá orkufyrirtækjum segja að raforkuframleiðsla með jarðhita sé í raun námagröftur og því ekki sjálfbær eða græn. Sama síbyljan.

Ef Milljarðamæringaforingjarnir ætla að segja rétt frá ættu þeir það miða frásögn sína í framtíðinni við staðreyndina að það stóð aldrei til að vísindamenn sem unnu fyrir verkefnisstjórn Rammaáætlunar gengju frá lokaflokkun heldur átti niðurstaðan að vera málamiðlun hjá hagsmunaaðilum. Svo er það bara spurningin hvort þeir hafa áhuga á að segja satt. Þeir hafa lítið sýnt það í þessu máli fram að þessu. Það er því nauðsynlegt fyrir almenning að muna að ástæðan fyrir því að þeir vilja breyta niðurstöðum Rammaáætlunar er ekki taumlaus þrá þeirra eftir faglegum niðurstöðum heldur ákafi þeirra í að breyta þeim í anda pólitískra markmiða sinna svo aftur sé hægt að hefja ný „Kárahnjúkaævintýri“ og drepa fleiri vatnasvið. Kjósendur sem ætla að greiða þessum flokkum atkvæði sitt ættu að muna hvað það þýðir fyrir umhvið ef loforðapakkinn glepur mönnum sýn og verða að horfast í augu við þá ábyrgð sem þeir axla ef þeir ætla að skapa Framsóknarmönnum og Sjálfstæðinmönnum skilyrði til að valsa um íslenska náttúru á nýjan leik til að rústa hana og hagkerfið í leiðinni.

]]>
http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/feed/ 0
Á samt ekki að nýta það http://smugan.is/2012/02/a-samt-ekki-ad-nyta-thad/ http://smugan.is/2012/02/a-samt-ekki-ad-nyta-thad/#comments Sat, 04 Feb 2012 18:30:44 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=50174 Fyrirsögn þessara hugleiðinga er spurning sem beint var til umhverfisráðherra í Kastljósi 25. janúar. Það var í framhaldi athugasemdar fréttamannsins, að margir væru ósáttir við Svandísi því hún hafi verið á móti stórframkvæmdum í tengslum við virkjanir og stóriðju. Aðspurð sagðist Svandís telja að hægt væri að koma hjólum atvinnulífsins á fullan skrið án stórframkvæmda og hún benti á að t.d. Danir og Hollendingar hefðu hvorki jarðhita né fallvötn en spjöruðu sig samt. Og þá kom spurning sem nefnd er hér í upphafinu. „Á samt ekki að nýta það“?

Ég verð að viðurkenna að þessi spurning kom illa við mig. Kannski var það tónninn í viðtalinu þar sem stöðugt var reynt að stilla ráðherranum upp við vegg varðandi allt sem tengist verndun eða breytingu á nýtingu. Skipti þá litlu hvort um var að ræða akstur í Vatnajökulsþjóðgarði, óhefta nýtingu lúpínu eða verndun svartfuglastofna. Kannski var það samhengið við þessar forsendur og það sem gengið var út frá í aðdraganda spurningarinnar, þetta með stóriðjuna og virkjanirnar. Þetta hljómaði svo ósköp mikið eins og verið væri að spyrja hvort ekki þyrfti að koma virkjunum í fallvötn og jarðhitasvæði svo hægt sé að tala um nýtingu þessara svæða. Ekki að spyrja um nýtingu heldur virkjun. Hafi ég misskilið, þá er ég feginn. Þá bið ég bara afsökunar á hugsunum mínum. Samt ákvað ég að setja þessar línur á blað því ég hef svo oft heyrt sagt áður að við verðum að virkja til að nýta þessar auðlindir. Mér finnst þetta alltaf sorgleg skammsýni, þröngsýni. Er það virkilega svo að eina leiðin til að nýta orkurík svæði sé talin virkjanaleiðin? Gleyma menn þá ekki að nýting getur verið fjölbreytt og orkuvinnsla er aðeins ein þeirra. Gleyma menn þá ekki að hugsa í nútímanum og svara eins og Svandís gerði þegar hún sagði að við þyrftum að sjálfsögðu að nýta þetta en með sjálfbærum hætti.

Vinnan í Rammaáæltun um vernd og nýtingu vatnsafls og jarðvarma snerist einmitt um þetta, þessa ólíku sýn til nýtingar. Þar kom skýrt fram að framkvæmdasinnar og stórlausnamennir settu eitt stórt samasemmerki milli nýtingar og virkjunar. Skipti þá litlu að slík nýting kemur oftast í veg fyrir aðra nýtingu, nýtingu sem gæti hæglega gefið meira af sér til þjóðarinnar en hefbundin orkuvinnsla. Og samt þurfum við líka virkjanir, bara ekki hvar sem er og fyrir hvað sem er. Ferðaþjónusta og útivist eru í samkeppni við orkugeirann um mörg lykilsvæði landsins. Það eru fleiri, t.d. náttúruvernd og sjálf ímynd landsins. Og svo er val á nýtingu líka siðferðislegt viðfangsefni, spurning um sjálfbærni og frammtíðarsýn.

Við höfum dæmi frá Gullfossi og Geysi um það hvernig nýting önnur en orkuvinnsla skapar mikil verðmæti, sönnun fyrir því að nýting er fleira en bara eitt. En hefðin er svo sterk fyrir virkjunum. Þeim hefur verið teflt fram sem patentlausn fyrir atvinnulíf og hagvöxt. Sjálft lykilatriðið. Og orkufyrirtækin fengu að hreiðra um sig eins og ríki í ríkinu og þau búa yfir miklum slagkrafti, enda margir sem hafa kosið að stíga upp í vagninn þeirra. Svo leggjast opinberar stofnanir á árar með þeim. Líka þingmenn sem vilja kaupa skammtímafylgi við eigin setu á þingi.

Hvað segja þá fréttamenn? Eru þeir að leita sannleika eða reka erindi með fréttafluttningi sínum? Sumir virðast hafa einlægan vilja til að horfa á málin í víðu samhengi, aðrir haga sér eins og málpípur. Löngu þekktar eru fréttir sem reglulega eru fluttar á Stöð 2 um nauðsyn þess að virkja. Óþreytandi er Kristján Már og leiðir okkur í allan sannleikann. Þar á bæ eru menn þó ekki einir á ferð heldur taka margir fjölmiðlar og fréttamenn orkuáróðurinn gagnrýnislítið upp og lita viðtöl sín og fréttir með honum. Andstæð sjónarmið eiga ekki alltaf jafngreiða leið til þjóðarinnar. Þetta er þó ekki algilt, sem betur fer.

Slagurinn í Rammaáætlun var um grundvallaratriði, um framtíðarsýn. Hann var um það hvort orkufyrirtækin eigi áfram að hafa frjálst skotleyfi á það sem þeim sýnist á Íslandi. Hann var um það hvort gamaldags virkjanaáform með tilheyrandi eyðileggingu óspilltrar náttúru, sundurtætingu víðerna og spillingu framtíðarmöguleika á að halda áfram að vera efst á dagskrá þeirra sem hingað til hafa geta selt sér sjálfdæmi um hvað það þýðir „að nýta það“. Mun stærri hagsmunir þjóðarinnar eru að það gerist ekki og því verðum við að geta treyst því að fréttamenn sem leita sannleika sýni að þeir viti að nýting er annað og meira en bara það að virkja.

Svo er bara að sjá hvort Alþingismenn ráða allir við að átta sig á þessu þegar þeir afgreiða Rammaáætlun, íslenskri þjóð og náttúru til heilla.

]]>
http://smugan.is/2012/02/a-samt-ekki-ad-nyta-thad/feed/ 0
Þekkingarleysi eða illur ásetningur http://smugan.is/2011/08/utanvegaakstur/ http://smugan.is/2011/08/utanvegaakstur/#comments Sat, 13 Aug 2011 11:50:46 +0000 tka http://smugan.is/?p=30684 Undanfarna daga hafa ítrekað borist fréttir af gáleysislegum akstri fólks um hálendi Íslands. Þeir sem þekkja vel til á hálendinu eru ekkert undrandi yfir slíkum fréttum því ummerki um utanvegaakstur eru alltof algeng og illa gengur að uppræta hann. Og hann á sér ekki bara stað á hálendinu, eins og sést ef farið er um Reykjanesskagann og næsta nágrenni höfuðborgarinnar þar sem landspjöll og ljótar slóðir blasa hvarvetna við. Fá eru þau fjöll og hnjúkar við þéttbýlið að þar finnist ekki slóðir eftir torfæruhjól einhverrar hetjunnar sem taldi sig meiri mann vegna þess að honum tókst að sigra tindinn á leikfanginu sínu. Það er auðvitað ástæða fyrir því að utanvegaakstur er bannaður. Skemmdir á gróðri og jarðminjum geta komið af stað keðjuvekun landeyðingar og slóðir eftir farartæki standa oft sem lýti um áratuga skeið í náttúru sem fólk vill almenn fá að hafa óspillta.

Vettvangur fyrir glannaskap og þrekraunir

Umræðan að undanförnu hefur ekki síst snúist um aksturslag útlendinga eftir frægðarförina í Blautulón. Það hefur sýnt sig að einhverjir þeirra virðast líta á náttúru Íslands sem vettvang fyrir glannaskap og „þrekraunir“ sem þeir ætla að stæra sig af og hafa peninga fyrir eins og myndböndin af Blautalónstrukknum sýna. Heyrst hefur í fjölmiðlum að það þurfi að kæra ökumanninn á trukknum fyrir að stofna farþegunum í hættu. Minna hefur heyrst um að hann og fyrirtæki hans ættu að fá á sig kæru fyrir ítrekuð afglöp sem stofna íslenskri náttúru í hættu. Það hlýtur að þurfa að kæra, ef senda á skýr skilaboð út til annarra á svipuðum buxum, að glannagangur og utanvegaaskstur séu ekki aðeins ólögleg heldur einnig ólíðandi og menn megi búast við hörðum viðbrögðum yfirvalda leggi þeir slíkt fyrir sig. Ég skil samt, að viss tregi sé hjá þeim sem verða vitni að utanvegaakstri að kæra, því ótrúlega hátt hlutfall slíkra kæra hafa dáið drottni sínum hjá hinu opinbera á undanförnum árum. Það segir okkur að annað hvort séu lögin gölluð eða það þurfi að fara yfir allan feril málanna svo tilætlaður árangur náist.

Þekkingarleysi kallar á upplýsingar

Ferðamálastjóri sagði í morgunútvarpi Rásar 2 að mest allur utanvegaakstur stafaði líklega af þekkingarleysi en ekki illum ásetningi. Ekki veit ég hvort ummerkin sem ég sá uppi á Námafjalli í Mývatnssveit nú fyrir skömmu stöfuðu frekar af illsku eða flónsku en ljóst var að þar höfðu skynsemi og virðing ekki verið með í för. Þar sýndu ummerki að stór trukkur hafði ekið fram hjá kaðlagirðingu við veg sem liggur upp á fjallið, út á sléttan leirinn og farið á bólakaf. Fjallið er vinsælt útivistarsvæði og þar eru bæði bílslóð og merkt gönguleið til að auðvelda mönnum för. Það dugði samt ekki þeim sem stýrðu trukknum, eins og djúpar og ljótar slóðir bera sorglegt vitni um. Það er eflaust rétt hjá ferðamálastjóra að skilningsleysi á eðli viðkvæmnar náttúru og vanþekking á lögum valdi því að menn halda sig ekki við vegi og opna slóða. Það er þó einnig tvímælalaust harður kjarni sem hefur ótvíræðan brotavilja. En fyrst þetta er þekkingarleysi, sýnir það þá okkur ekki að það hefur hvorki tekist að upplýsa þá útlendinga sem keyra hér út um allt, né heldur Íslendingana. Þetta kallar því bæði á stóraukna fræðslu, bæði almennt og úti á vettvangi og eins mikið og öflugt eftirlit. Það verður að byggja á því góða starfi sem þegar er í gangi, styrkja landvörslu og hálendiseftirlit og virkja almenning til aðstoðar. Ferðamálayfirvöld, umhverfisyfirvöld og lögreglan verða að taka enn betur á en tekist hefur til þessa. Ef við viljum vernda náttúru landsins, eiga hana sem auðlind fyrir ferðamenn og útivistarfólk til framtíðar og uppfylla skyldur okkar kynslóðar um varðveislu náttúrugæða getum við ekki beðið með að taka hraustlega á þessum málum strax. Í raun er ekkert annað í boði, ef okkur er ekki sama um landið okkar.

 

]]>
http://smugan.is/2011/08/utanvegaakstur/feed/ 0