Smugan » Aðsendar greinar http://smugan.is Vefrit um pólítík og mannlíf Tue, 30 Apr 2013 22:00:37 +0000 is-IS hourly 1 http://wordpress.org/?v=3.4.2 Rafrænt lýðræði http://smugan.is/2013/04/rafraent-lydraedi/ http://smugan.is/2013/04/rafraent-lydraedi/#comments Sat, 27 Apr 2013 11:09:32 +0000 tka http://smugan.is/?p=99640 Tómas Árni Jónasson Píratakafteinn segir á heimasíðu Pírata: Ég er pírati vegna þess að ég tel að núverandi stjórnsýslukerfi séu ekki eins skilvirk og þau gætu verið. Beinna lýðræði, miklu meira gegnsæi. Internetið er verkfæri sem við getum beitt til þess að ná því í gegn“. Þetta er vel mælt og þarna eigum við Tómas samleið nema það að ég er ekki Pírati.

Annar Pírati, Birgitta Jónsdóttir, bauð frambjóðendum í Suðvesturkjördæmi rafrænt kosningakerfi Pírata að gjöf í sjónvarpsþætti um daginn en í framhaldi af því skrifaði ég grein á Smuguna sem bar heitið „Píratar og beina lýðræðið“. Sú grein var gagnrýnd af hálfu Pírata og ekki kveinka ég mér undan því heldur fagna því. Umræða um þetta mikilvæga mál er af hinu góða og miklu skiptir að niðurstaðan verði rétt.    

Er Píratakerfið rafrænt kosningakerfi Besta flokksins? 

Ég skoðaði heimasíðu Pírata og sá satt best að segja ekkert um kosningakerfi þeirra. Í lögum Pírata er ítrekað talað um „rafrænt kosningakerfi félagsins“ en ekkert sagt um hvað í því felst. Gott væri að fá nánari útskýringar hvað þetta varðar. Þegar ég var að rita þessa grein opnaði ég (enn einu sinni) vef Pírata og þá birtist frétt sem sem sett hefur verið inn í dag (26. apríl) en þar segir meðal annars: 

„í samstarfi við hönnuði Betri Reykjavíkur skuldbinda Kafteinar Pírata í öllum kjördæmum sig til að leggja fram þingmál sem landsmenn geta sett inn og kosið um á vefnum Betra Ísland“.

Þetta rímar ekki við það sem  Stefán Vignir Skarphéðinsson Píratakafteinn segir í athugasemd við fyrri grein mína um Píaratana en hún er svona:

„Hér heldur greinarhöfundur að flest þau kerfi sem notuð hafa verið við „beint lýðræði“ eins og Betri hverfi séu eitthvað sem skapar raunveruleg lýðræði. Það er stór munur á því og að stjórnmálaflokkur geti komið sér upp fljótandi lýðræði þar sem allar ákvarðanir um stefnumál eru teknar. Og það er reginmunur á raunverulegu beinu lýðræði og því að logga sig inn til að kjósa á milli þess hvort það ætti að reita njóla á umferðareyju í hverfinu eða mála róluvöllinn. Málið er að Píratar er eina framboðið sem þorir að fara alla leið í þessum málum og kann að framkvæma þær tæknilega.“

Fullyrðingar af þessum toga eru óheppilegar þegar forystan ákveður örfáum dögum síðar að taka upp kerfið forboðna en hvað meinar Kafteinninn með þeirri fullyrðingu að Píratar séu „eina framboðið sem þorir að fara alla leið í þessum málum og kann að framkvæma þær tæknilega.“ Er hann þá að meina að Píratar búi yfir kosningakerfi sem dugir fyrir lögbundnar kosningar til sveitastjórna og Alþingis jafnt sem forsetakosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur? Eða felast í þessu þær hugmyndir Pírata að ljá öðrum atkvæði sitt, nokkuð sem þarfnast útskýringa og er ótraustvekjandi hvað varðar lögbundnar kosningar, kosningaleynd og mögulega verslun með atkvæði svo dæmi séu tekin.

Reynsla Norðmanna

Ögmundi Jónassyni tókst rétt fyrir þinglok að ná í gegn frumvarpi um rafrænar íbúakosningar. Þegar málið var í höfn var farið að vinna að reglugerð, huga að kosningakerfi, skipa ráðgjafanefnd og svo framvegis. Í tengslum við þessa vinnu komu þrír fulltrúar frá norska sveitarstjórnarráðuneytinu til landsins og funduðu með sérfræðingum innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleirum.

Sú ráðgjöf sem þar var veitt er okkur dýmæt því þarna voru menn sem unnið hafa sleitulaust að rafrænum kosningum frá árinu 2008. Norðmenn byrjuðu varlega og í upphafi framkvæmdu þeir í tilraunaskyni, rafrænar nemendaráðskosningar og annað slíkt. Árið 2011 var farið af stað með tilraunaverkefni í 10 sveitarfélögum um rafrænar kosningar til sveitarstjórna en þar voru öryggiskröfur ríkari en í Eistlandi sem er það land sem hefur gengið lengst í rafrænum kosningum á netinu. 

Um var að ræða rafrænar kosningar samhliða hinum hefðbundnu en þeim rafrænu lauk áður en kjörstaðir opnuðu á kjördag. Hægt var að kjósa eins oft og menn vildu með rafrænum hætti og gilti þá síðasta atkvæðið. Á þennan hátt var talið nægjanlega tryggt að kjósandi gæti kosið með leynd og án þrýstings þar sem alltaf væri hægt að kjósa aftur. Norðmennirnir munu endurtaka leikinn í þingkosningum í september.

Norðmennirnir töldu að við værum á réttri leið. Mikilvægt væri að flýta sér hægt og tilraunaverkefni okkar væri það skref sem taka skyldi nú. Á alþjóðavísu væru margir og öflugir andstæðingar kosninga á netinu og þeir væru fljótir að auglýsa mistök, nokkuð sem gæti fært verkefnið nokkur nokkur ár aftur í tímann. Allt byggðist á því að kosningaleyndin væri tryggð og kjósandinn treysti aðferðinni. Kosningakerfin ætti að prófa ítrekað og þróa þar til öryggið teldist ásættanlegt og traustinu náð.

 

Ögmundur Jónasson   

Friðrik Dýrfjörð Píratakafteinn gagnrýndi mig fyrir að nefna Ögmund Jónasson ítrekað í grein minni og Friðrik segir að þarna komi „ekki fram að þetta er framhald að stefnu sem nefnd var Netríkið Ísland….“ Því er til að svara að til eru mýmargar stefnur í bókahillum ráðuneyta sem oftar en ekki rykfalla og gleymast. Stefnur um upplýsingasamfélagið hafa verið gerðar síðan fyrir aldamót og þar má meðal annars finna hugmyndir um rafrænar kosningar. Ögmundur Jónasson tók við  upplýsingasamfélaginu þegar málaflokkurinn var færður frá forsætisráðuneytinu til innanríkisráðuneytisins. 

Ögmundur sem er maður samráðs hóf strax vinnu við gerð nýrra sveitarstjórnarlaga sem juku lýðræðislegan rétt íbúanna og setti í gang, í samvinnu við Samband sveitarfélaga, nefnd um eflingu sveitarstjórnastigsins sem síðan skilaði mörgum nytsömum tillögum. Fyrstu níu tillögurnar fjölluðu um rafræna stjórnsýslu og rafræna lýðræðismöguleika. Í framahaldi skipaði Ögmundur stýrihóp um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði en hópurinn skilaði svo tillögum að frumvarpi  að rafrænum íbúakosningum sem Ögmundur gerði að sínu er nú orðið að lögum eins og áður sagði.

Það sem ekki síður skiptir máli er röggsemi Ögmundar Jónassonar þegar hann gerði tillögur stýrihópsins um rafrænar auðkenningar að sínum, afhenti Þjóðskrá verkefnið og úr varð Íslykillinn. Opinbert auðkenningarkerfi sem nýtist jafnt í rafrænni stjórnsýslu sem rafrænum kosningum (þess má geta að Píratar nota Íslykilinn fyrir sín kerfi). Þetta gerði Ögmundur í andstöðu við Auðkenni, sem gefur út rafræn skilríki, en fyrirtækið er í eigu banka og annarra fjármálafyrirtækja. Fjármálaráðuneytið andæfði einnig fyrirætlunum Ögmundar en í samvinnu við Auðkenni stefndi ráðuneytið að því að allir Íslendingar auðkenndu sig inn á opinbera stjórnsýslu og kysu, með bankakortum.

Rúllum hjólinu réttan veg

Það er óþarfi að rífast um það, hver fann upp hjólið. Sú kona er löngu látin og öllum gleymd. Það sem skiptir máli er að allir, hvar í flokki sem þeir standa, taki höndum saman og tileinki sér þá hugsun sem Tómas Árni Jónasson, Píratakafteinn talar svo ágætlega fyrir: „Beinna lýðræði, miklu meira gegnsæi. Internetið er verkfæri sem við getum beitt til þess að ná því í gegn“.
Þorleifur Gunnlaugsson                           
Höfundur er formaður stýrihóps um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði.

]]>
http://smugan.is/2013/04/rafraent-lydraedi/feed/ 0
Tökum upplýsta ákvörðun http://smugan.is/2013/04/tokum-upplysta-akvordun/ http://smugan.is/2013/04/tokum-upplysta-akvordun/#comments Fri, 26 Apr 2013 20:36:36 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99604 Við systkinin ætlum að mæta á kjörstað næsta laugardag þar sem tvö okkar munu kjósa í fyrsta skipti til Alþingis.

Þó framboðin séu ósammála um margt, virðast þau við fyrstu sín vera sammála þegar kemur að náttúru Íslands. Stefna þeirra er að nýta auðlindir náttúrunnar með sjálfbærni að leiðarljósi. En það er þó mjög greinilegur munur á því hvernig flokkarnir túlka orðið sjálfbærni.

Við viljum vekja athygli á þessum mun.


Sjálfbærni og vatnsaflsvirkjanir í jökulám

Samkvæmt skilgreiningu er sjálfbærni, eða sjálfbær þróun, sú þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Aukinn skilningur á mikilvægi sjálfbærni er ein af ástæðunum fyrir því að gríðarleg áhersla hefur verið lögð á endurnýjanlega orkugjafa um allan heim og bak við þessi rök skýla virkjanasinnaðir íslenskir stjórnmálamenn sér.

En það er eitt sem gleymist.

Vatnsaflsvirkjanir í jökulám eru ekki endurnýjanlegir orkugjafar, nema til skamms tíma, sbr. Kárahnjúkavirkjun og 100 ára áætlaðan líftíma hennar (önnur afleiðing þeirra framkvæmda er stórkostleg eyðilegging á lífríki Lagarfljóts). Þarna er því alls ekki um sjálfbærni að ræða.

Eins og sést á grafinu hér að neðan jókst raforkunotkun á Íslandi um rúm 300% milli áranna 1990 og 2011. Til samanburðar má nefna að notkun á raforku jókst u.þ.b. 16% á þessu tímabili í Danmörku og 15% í Noregi.

 

Ákvarðanir um margföldun á raforkuframleiðslu á Íslandi voru vafalaust teknar í góðri trú og rökin fyrir vatnsaflsvirkjunum í jökulám voru m.a.:

  1. Aukin landsframleiðsla.
  2. Fjölgun íbúa og starfa á landsbyggðinni.
  3. Lítil umhverfisáhrif.

Lærum af mistökunum

Reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur að:

  1. Ef raunverulegur vilji er til þess að auka landsframleiðslu og skapa verðmæti þá er stóriðja s.s. vinnsla á áli, alls ekki arðvænlegasti kosturinn.
  2. Fólksfækkun hefur verið á landsbyggðinni þvert á loforð og öfugt við aukna raforkuframleiðslu (Sjá graf).
  3. Vatnsaflsvirkjanir í jökulám eru ekki umhverfisvænar. Þær raska vistkerfum, hafa stuttan líftíma og geta því aldrei talist til sjálfbærrar nýtingar á náttúrunni.

Þar sem þessar staðreyndir liggja fyrir, skiljum við ekki hvernig í ósköpunum ákveðnir frambjóðendur og flokkar geta enn þann dag í dag barist fyrir frekari stóriðju á Íslandi.

Við verðum að fara vel með það sem við eigum. Ísland er stútfullt af tækifærum, notum þau og gerum það skynsamlega. Virði óspilltrar náttúru mun bara aukast með tímanum.

Tökum upplýsta ákvörðun, látum náttúruna njóta vafans og kjósum flokk sem raunverulega styður sjálfbærni og tekur afstöðu á móti frekari stóriðju.

Gleðilegt sumar,

Guðlaug Erlendardóttir nemi við Verzlunarskóla Íslands
Steinn Orri Erlendsson stúdent frá Verzlunarskóla Íslands
Leifur Bjarki Erlendsson verkfræðinemi við DTU

]]>
http://smugan.is/2013/04/tokum-upplysta-akvordun/feed/ 0
Gagnrýnin hugsun og framtíðin http://smugan.is/2013/04/gagnrynin-hugsun-og-framtidin/ http://smugan.is/2013/04/gagnrynin-hugsun-og-framtidin/#comments Fri, 26 Apr 2013 20:00:53 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99560 Ég sit hérna á Østerbro í Kaupmannahöfn með hnút í maganum og lít á bókina sem ég er með í höndunum: gagnrýnin orðræðugreining (critical discourse analysis). Bókina er ég að nota við skrif á meistararitgerð minni í Mannvistfræði við Háskólann í Lundi, hnúturinn í maganum skýrist af því að stutt er í lokaskil en þó stafar hann ekki síður af líklegum niðurstöðum kosninga til Alþingis á morgun.

Ég hafði ákveðið með sjálfri mér að einbeita mér að meistararitgerðarskrifum og taka ekki þátt í kosningaumræðu, nema þá helst við eldhúsborðið heima hjá mér, en eftir ítrekaðar niðurstöður skoðanakannana get ég ekki lengur orða bundist. Í fullri einlægni þá er ég hrædd. Ég er virkilega hrædd við að niðurstöður kosninganna verði á þann veg sem skoðanakannarnir gefa til kynna.

En hvurslags aumingjaskapur er það eiginlega? Við hvað þarftu að vera hrædd? Þetta eru nú bara stjórnmál og þau eru nú ekki dónaleg loforðin sem verið er að bjóða okkur hægri vinstri- eða aðallega hægri.

Jú það eru einmitt þessi loforð sem hræða mig. Þau hræða mig þar sem að máttur þeirra virðist vera meiri en raunverulegar afleiðingar sem fólk fékk að finna fyrir á eigin skinni fyrir tæpum fimm árum síðan. Raunverulegar afleiðingar stjórnar sem byggir samfélag á öðrum grunni en þau samfélög sem við kjósum að bera okkur saman við og sem við óskum okkur. Ég ætla ekki að fara út í það hvað þessi ákveðna stjórn stóð fyrir, en það sama virðist uppi á teningnum í kosningaloforðum þeirra nú: hátekjufólk græðir á kostnað lágtekjufólks, náttúran verður ódýr skiptimynt fyrir stórfyrirtæki sem hlægja að heimskunni í okkur og biðstofur hjá læknum verða enn fyllri af grátandi ungabörnum og fólki í neyð þegar meira hefur verið skorið niður í velferðarkerfinu.

Loforðin hljóma óneitanlega vel, hvaða heilvita manneskja slær hendinni á móti kröftugri atvinnuuppbyggingu, auknum hagvexti, flatri niðurfellingu skulda, skattalækkunum og auknum ráðstöfunartekjum? Hvaða heilvita manneskja með gagnrýna hugsun ætti þó að sjá við nánari athugun að þessi loforð geta ekki staðist nema skorið verði niður einhversstaðar og það liggur fyrir á hverjum þessi niðurskurður mun bitna hve harðast.

Hræðsla mín er því ekki að ástæðulausu. Þeir eru nú þegar byrjaðir að sveima yfir Íslandi, hrægammarnir sem sjá fram á orku á gjafverði og er nokk sama um eyðileggingu náttúruauðlinda svo framarlega sem ,,græni” dollarinn lendi í þeirra vasa. Ég sármóðgast yfir því að ESB samningurinn lendi líklega innan tíðar í ruslatunnunni án þess að við fáum að líta hann augum og er ekki treyst fyrir að kjósa um hann. Ég finn til með þeim sem munu upplifa niðurskurðinn í velferðarkerfinu á eigin skinni. Ég er logandi hrædd um það að mikið af unga fólkinu fari eða við sem erum enn úti viljum ekki koma aftur.

Það stendur ekki í kosningaloforðunum að þetta verði afleiðing uppfyllingar þeirra, en gagnrýnin athugun ætti að leiða það í ljós að eitthvað mikið er bogið við þau. Það er skortur á gagnrýnni hugsun sem ég held að sé ástæðan fyrir háu fylgi gylliboðsflokkanna. Svo auðvelt er að afvegaleiða manneskju sem ekki hefur kynnt sér málin að loforð, útúrsnúningar og málalengingar útvega atkvæði hjá ginnkeyptum kjósendum.

Innantóm loforð óma á öldum ljósvakans og fylla alla fjölmiðla og framtíðin lyktar af fortíðarþrá.

Elsku Íslendingar, kjósið af gagnrýni og framtíðarsýn á morgun

]]>
http://smugan.is/2013/04/gagnrynin-hugsun-og-framtidin/feed/ 0
Ekki viljum við vera þjóð sem er þver http://smugan.is/2013/04/ekki-viljum-vid-vera-thjod-sem-er-thver/ http://smugan.is/2013/04/ekki-viljum-vid-vera-thjod-sem-er-thver/#comments Fri, 26 Apr 2013 10:09:10 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99519 Íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum margt síðasta áratuginn, frá því að springa nánast úr monti yfir útrásarvíkingunum okkar og hvað þeir voru nú duglegir  og áræðnir, annað en þessar veimiltítur í útlöndum, yfir í það að biðjast afsökunar á tilveru okkar og nánast biðja Dani um að taka við okkur aftur, við gætum jú ekki ráðið okkur sjálf.  Á árunum fyrir hrun var nefnilega ofsalega gaman,  fyrir suma, það var ekkert mál að kaupa bíl, alltaf hægt að fá lán, ekkert mál að kaupa íbúð, alltaf hægt að fá lán, svo komu fullt af flottum tónlistarmönnum til landsins, reyndar ekki til að spila fyrir almenning, heldur til að spila í einkasamkvæmum auðmanna. Á árunum fyrir hrun þótti líka réttast að ríkið losaði sig við svona óþarfa, til dæmis eins og bankana, það væri nú mikið betra ef að þeim væri stjórnað af einkaaðilum, nú eða Símann, það gæti nú hver sem er rekið svoleiðis þjónustu. En þá birtist VG, þvermóðskan uppmáluð og taldi mögulegt að byggja hér upp samfélag sem einkenndist af jöfnuði, vildi afnema gróðahyggjuna og stöðva einkavæðinguna. En svo fór sem fór og haustið 2008 þegar allt fór hér á hliðina var VG eini flokkurinn sem gat tekið við búi. Og hvað gerðist svo? Jú, endurreisnarstarfið tók við. Á fjórum árum hefur orðið stökkbreyting á stöðu ríkissjóðs, atvinnuleysi minnkað og verðbólgan hjaðnað. Að þessum fjórum árum liðnum hafa gömlu flokkarnir sem stýrðu landinu í þrot hugsað sitt mál og eru komnir á skrið aftur. Ekki svo að þeir hafi breytt um taktík, breytt um stefnu, nú er keyrt á minnisleysi þjóðarinnar. Þegar við gerum upp hug okkar fyrir kosningarnar er því ekki úr vegi að huga að því hvaða flokkur varaði við einkavæðingu bankanna, varaði við einkavæðingu Símans og varaði við óstjórn í ríkisfjármálum. Það er sami flokkur og hefur stýrt okkur áleiðis út úr kreppunni. Munum það þegar við göngum inn í kjörklefann, við þurfum að standa á móti gylliboðum og falsvonum flokka sem standa einungis vörð um sérhagsmuni, við þurfum fólk á þing sem er tilbúið að berjast fyrir auknum jöfnuði í samfélaginu og ábyrgð í ríkisfjármálum. Við þurfum Vinstri- grænt fólk á þing, því stundum þarf þjóð að vera þver.

 

Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir

3. sæti VG í Norðvesturkjördæmi

]]>
http://smugan.is/2013/04/ekki-viljum-vid-vera-thjod-sem-er-thver/feed/ 0
Af hverju kýs ég VG http://smugan.is/2013/04/af-hverju-kys-eg-vg/ http://smugan.is/2013/04/af-hverju-kys-eg-vg/#comments Fri, 26 Apr 2013 09:54:52 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99516 Í gær sagði félagi minn við mig að eina leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins í gang væri að lækka skatta og því ætlaði hann að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég sagði hann vaða villur vega og fékk í kjölfarið spurninguna frá öðrum félaga um hvað ég kysi sem ég svaraði með VG. Af hverju var þá spurt.

Ég kýs VG vegna þess að flokkurinn hefur náð frábærum árangri í ríksstjórn síðustu fjögur árin þrátt fyrir að taka við í erfiðri stöðu. Ég kýs VG þó svo að ég hefði viljað sjá flokkinn ná meira af baráttumálum sínum í gegn á síðastliðnu þingi. Ég kýs VG vegna þess að sá flokkur gefur ekki óábyrg loforð en reynir af fremsta megni að standa við þau loforð sem gefin eru. Ég kýs VG vegna þess að í ríkisstjórn hefur flokkurinn:

  • Lækkað fjárlagahallann í 1,7% af því sem hann var þegar ríkisstjórnin tók við.
  • Stuðlað að því að verðbólga hefur lækkað um 14 prósentustig.
  • Breytt hægrisinnuðu skattkerfi þar sem þeir sem mestar tekjur höfðu greiddu lægra hlutfall tekna sinna í skatt í skattkerfi þar sem fólk með lægri tekjur er varið en þeir sem mestar tekjur hafa leggja meira af mörkum.
  • Breytt þjóðfélaginu frá því að vera þjóðfélag þar sem þegnar bjuggu við mikla misskiptingu auðs og tekna í þjóðfélag þar jöfnuður er hvað mestur.

Þar að auki get ég sagt félaga mínum að atvinnuleysið hefur helmingast á kjörtímabilinu og hagvöxtur er með því mesta sem gerist í Evrópu. Þannig að hjól atvinnulífsins eru klárlega komin í gang. Þau eru komin í gang fyrir alla Íslendinga og látum ekki Sjálfstæðisflokkinn hægja á þeim hjólum eða leyfa þeim að snúast eingöngu fyrir Sjálfstæðismenn.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Prófessor við Íþróttafræðasetur HÍ á Laugarvatni

]]>
http://smugan.is/2013/04/af-hverju-kys-eg-vg/feed/ 0
Betri laun og launajöfnuð http://smugan.is/2013/04/betri-laun-og-launajofnud/ http://smugan.is/2013/04/betri-laun-og-launajofnud/#comments Thu, 25 Apr 2013 17:38:39 +0000 tka http://smugan.is/?p=99487 Launafólk þessa lands færði fórnir í efnahagshruninu. Elja þess og fórnfýsi á drýgstan þátt í því að þjóðarskútan bjargaðist og er aftur að komast á góðan skrið. Við hrunið magnaðist verðbólgan og allt hækkaði nema launin. Kaup hefur hækkað minna en verðlag og kaupmáttur því rýrnað. Vinstristjórnin sá þó til þess að kaupmáttur fólksins með lægstu launin og lægstu bæturnar rýrnaði minna en meðaltekjufólks. Þrátt fyrir auknar skattaálögur á hátekjufólk hefur mörgum þeirra tekist að stórauka kaupmátt sinn, enda í aðstöðu til að skammta sér sjálft sínar eigin tekjur og sinna nánustu. Það má t.d. sjá á nýjum glæsikerrum á götunum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð ályktaði á síðasta landsfundi að grípa skuli til róttækra aðgerða til að minnka launamun í íslensku samfélagi og útrýma launaleynd. Í samfélagi sem leggur áherslu á jöfnuð er óréttlætanlegt að hæstu laun sé tug – eða jafnvel hundraðfalt hærri en hæstu laun. Mikilvægt er að laun fólks með sambærilega reynslu og menntun verði samræmd. Þær stéttir sem sinna grunnstoðum velferðarkerfisins eiga að njóta mannsæmandi kjara, og vera metnar til samræmis við mikilvægi þeirra starfa sem þær sinna.

Landsfundurinn áréttaði þá afstöðu að kynbundinn launamunur sé ólíðandi mannréttindabrot, hvort sem hann er milli stétta eða innan þeirra. Kynbundinn launamun á að greina og leiðrétta hvar sem hans verður vart.

Ráðstöfunartekjur ráðast ekki bara af sjálfum laununum, heldur ekki síður af verðlagi og því að grunnþjónustan sé ódýr eða ókeypis og að innviðir þjóðfélagsins séu traustir. Vinstri stjórnin setti í forgang að verja innviði og grunnþjónustu fyrir hruni, en launin sátu eftir, hækkuðu minna en verðlag.

Í grein sinni í Fréttablaðinu 30. mars segir Katrín Jakobsdóttir meðal annars:  “Nú þarf hins vegar að snúa vörn í sókn og fyrsta skrefið er að viðurkenna störf þeirra sem bera uppi heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfið frá degi til dags. Það er staðreynd að kjör þeirra sem þar starfa eru ekki í samræmi við mikilvægi þeirra fyrir samfélagið. Á nýju kjörtímabili eigum við því að sameinast um að bæta kjör þessara stétta umfram annarra.”

Í árslok verða flestir launasamningar lausir. Þegar við kjósum núna þurfum við m.a. að hafa í huga hverjum við treystum best til að koma til móts við kröfur launafólks um bætt kjör.

Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur og kennari, Vogum

]]>
http://smugan.is/2013/04/betri-laun-og-launajofnud/feed/ 0
Stöndum saman jafnaðarmenn http://smugan.is/2013/04/stondum-saman-jafnadarmenn/ http://smugan.is/2013/04/stondum-saman-jafnadarmenn/#comments Thu, 25 Apr 2013 17:35:46 +0000 tka http://smugan.is/?p=99478 Ég er jafnaðarmaður. Ég þakka það meðfæddri skynsemi og áunninni réttlætiskennd. Ég vil að á Íslandi sé skapað “réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð” eins og segir í aðfararorðum nýu stjórnarskrárinnar. Þess vegna kýs ég Samfylkinguna, Jafnaðarmannaflokk Íslands.

Ég tók Alþingispróf DV. Þar reyndist mér næst í skoðunum Samfylkingarfólk en líka fólk úr hinum ýmsu nýju framboðum, Lýðræðisvakt, Bjartri framtíð o.s.frv. Engir Framsóknarmenn eða Sjálfstæðismenn. Þetta segir mér að í öllum þessum nýju framboðum eru sannir jafnaðarmenn sem ættu að vera í flokki með mér og ég með þeim. Þar er margt glæsilegt, greint og vel meinandi fólk, ekki síst af yngri kynslóð, sem á erindi í stjórnmal. Markmiðin um gott samfélag eru sameiginleg þó greini á um leiðir í fáeinum atriðum. Það er sárt að atvæði íslenskra jafnaðarmanna skuli dreifast á svo mörg framboð og að stór hluti þeirra muni verða áhrifalaus í reynd.

Áhrifalaus – og þó ekki. En áhrifin eru öfug. Þessi sundrung jafnaðarmanna er vatn á myllu hægri flokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem bíða eftir að 2007 komi aftur. Þeir bíða þess að geta aftur leikið sama leikinn og áður. Þeir bíða þess að bæta lífskjör hátekjufólks á kostnað almennings. Þeir bíða þess að einkavæða heilbrigðiskerfi og menntakerfi, selja sjálfum sér banka, fénýta sameiginlegar auðlindir í þágu einkavina, laumast í tryggingarsjóði, kynda undir nýrri bólu. Raka saman tugmilljónum í kosningastyrki gegn greiða hér og hyglun þar. Umhverfissóðarnir bíða þess að “rétta kúrsinn”, eins og þeir kalla það, í auðlindamálum, rífa upp rammaáætlun, svo þeir geti aftur farið að sökkva dölum og menga stöðuvötn, veðsetja kvóta til að fjármagna brask.

Allt þetta geta jafnaðarmenn komið í veg fyrir ef þeir bera gæfu til að vinna saman. Það gera þeir best með því að styðja Samfylkinguna – Jafnaðarmannaflokk Íslands. Flokk sem stendur fyrir almannahagsmuni og gegn sérhagsmunum og spillingu.

En samtakamátturinn skiptir öllu. Munum það. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna.

Hörður Filippusson

Prófessor í lífefnafræði við HÍ

]]>
http://smugan.is/2013/04/stondum-saman-jafnadarmenn/feed/ 0
VG heimtar aðildarsamning við ESB http://smugan.is/2013/04/vg-heimtar-adildarsamning-vid-esb/ http://smugan.is/2013/04/vg-heimtar-adildarsamning-vid-esb/#comments Thu, 25 Apr 2013 17:25:23 +0000 tka http://smugan.is/?p=99479 Umræðurnar í sjónvarpssal á þriðjudagskvöldið um afstöðuna til ESB-aðildar voru um margt fróðlegar en jafnframt afhjúpandi um fávisku talsmanna margra framboða um það, hvernig þjóðréttarsamningar verða til. Aftur og aftur kom upp klisjan um að þjóðin eigi að fá að ráða, hvort menn treysti ekki þjóðinni? Þáttarstjórnendur hjálpuðu áheyrendum því miður lítið til að komast að kjarna máls um yfirstandandi inngönguviðræður.

 

Samningur verður ekki til í tómarúmi

„Þjóðin“ semur ekki við Evrópusambandið, heldur þarf til þess kjörið stjórnvald, ríkisstjórn sem styðst við þingmeirihluta og sem ber stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á hugsanlegum aðildarsamningi. Ríkisstjórn gerir væntanlega ekki aðildarsamning við ESB bara til að þjóðin fái að greiða um hann atkvæði. Flokkar sem standa að samsteypustjórn hljóta að þurfa að vera sammála um að samningur sem þeir eru tilbúnir til að undirrita sé að þeirra mati aðgengilegur fyrir Ísland, – að sjálfsögðu með fyrirvara um meirihlutasamþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um slíka ákvarðandi atkvæðagreiðslu er enginn ágreiningur milli stjórnmálaflokka. En fyrst eftir að slíkur samningur liggur fyrir væri komið að þjóðinni að segja sitt um niðurstöðuna.

VG siðferðilega í gapastokki

Málflutningur talsmanns VG í sjónvarpsviðræðunum, Svandísar Svavarsdóttir, er skýrt dæmi um það hvernig stjórnmálamenn geta misst fótanna þegar kemur að grundvallarreglum í afdrifaríkum samningaviðræðum. Í þættinum reyndi hún  að skýra mótsagnakennda afstöðu VG-forystunnar til ESB-aðildar og framhalds viðræðna. Fyrirspurn þáttastjórnenda um þetta svaraði hún á þessa leið:

“Við áréttuðum síðast að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Við erum sammála þjóðinni um það. En við erum líka sammála þjóðinni um að það eigi að leiða málið til lykta og koma því í þann búning að það sé tækt til þjóðarinnar til afstöðu. Að þjóðin taki efnislega afstöðu til niðurstöðu og við höfum nefnt í því sambandi eitt ár frá kosningum til að ramma þessa umræðu inn, þannig að við erum sammála þjóðinni um að það eigi að halda viðræðunum áfram og botna þær og við erum líka sammála þjóðinni um að okkur sé betur borgið utan sambandsins.“

Þáttastjórendur spurðu, hvort þetta væri trúverðug afstaða og Svandís taldi svo vera:

„Vegna þess að við teljum að spurningin sé það krefjandi og mikilvæg að það sé ekki stjórnmálamanna að rífa þetta ferli úr sambandi. Það sé mikilvægt fyrir almenning í landinu og fyrir lýðræðið í landinu og umræðuna í landinu að klára þetta með lýðræðislegum hætti. Við teljum þetta það mikilvægt að þetta verði ekki leitt til lykta í einhverjum stjórnarmyndunarviðræðum og einhverjum lokuðum bakherbergjum heldur þurfi almenningur að fá botn í málið og fá að taka lýðræðislega afstöðu.“

Stjórnmálamenn á flótta

Fulltrúi VG minntist hér ekki orði á aðildarsamning en samt á að „leiða málið til lykta“. Að mati Svandísar mega stjórnmálamenn hvergi nærri koma og í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum má í engu hrófla við umsóknarferlinu. Umfram allt verði að koma málinu „í búning“ og botna viðræðurnar. Í raun er hún að heimta að gerður verði aðildarsamningur. En það voru fleiri frá fjórflokkunum en Svandís á flótta í þessu máli. Fulltrúi Framsóknarflokksins átti í miklum erfiðleikum með að skýra afstöðu eigin flokks, sjálfur eindreginn ESB-andstæðingur. Og Sjálfstæðisflokkurinn talar þrátt fyrir sinn landsfund í gátum um það, hvernig hann hyggst höndla framhaldið, m.a. hvað eigi að spyrja þjóðina um áður en lengra verði haldið. Það var aðeins fulltrúi Regnbogans sem talaði skýrt í þessu örlagamáli. Þátturinn í heild sýndi að hvað sem skoðanakönnunum líður ríkir mikil óvissa um framvindu ESB-viðræðna að kosningum loknum og fólk sem vill standa vörð um sjálfstæði Íslands þarf að halda vöku sinni sem aldrei fyrr.

Hjörleifur Guttormsson

 

]]>
http://smugan.is/2013/04/vg-heimtar-adildarsamning-vid-esb/feed/ 0
Hvers vegna er horft til íslensku leiðarinnar? http://smugan.is/2013/04/hvers-vegna-er-horft-til-islensku-leidarinnar/ http://smugan.is/2013/04/hvers-vegna-er-horft-til-islensku-leidarinnar/#comments Thu, 25 Apr 2013 12:58:24 +0000 tka http://smugan.is/?p=99469 Haustið 2008 varð á Íslandi eitt dýpsta efnahagshrun sem sögur fara af. Allt bankakerfi landsins hrundi, gjaldeyrisforðinn þurrkaðist út og gjaldþrot þjóðarinnar blasti við. Staða landsins var svo fordæmalaus að hvergi var hægt að finna fyrirmynd að leið til að forða þjóðargjaldþroti. Þannig var staðan fyrir rúmum 4 árum, því megum við ekki gleyma. Víða hefur verið fylgst með framgangi mála á Íslandi síðan. Erlendir fjárfestar, sem sáu fram á að tapa eignum sínum hér, hafa vitaskuld fylgst með framvindunni og það hafa fréttamenn og fulltrúar stjórnvalda margra ríkja einnig gert

Umræðan

Umræða á erlendum vettvangi um stöðu og horfur á Íslandi hefur tekið gagngerum breytingum frá hruntímabilinu. Athygli heimsins beinist að því hvernig okkur hefur tekist að endurreisa landið eftir eitt dýpsta efnahagshrun sem sögur fara af, sýnt sjálfstæði með því að fara nýjar leiðir í stað þess að láta undan þrýstingi og hugmyndafræði markaðsafla. Erlendis bera menn stöðu Íslands saman við djúpa efnahagskreppu nokkurra Evrópuríkja og þeirra aðgerða sem beitt er gangvart þeim löndum. Á Íslandi beinist umræðan aðallega að húsnæðislánum og erfiðri skuldastöðu heimila og gagnrýnt er að dauft sé yfir atvinnulífi landsins sökum þess að ekki hafi verið ráðist í stórframkvæmdir. Að sjálfsögðu lítur hver í eigin barm, en það gleymist að bera okkur saman við aðrar þjóðir í mikilli skuldakreppu.

Þessa síðust viku fyrir Alþingiskosningar sit ég þing Evrópuráðsins og upplifi enn og aftur þá miklu aðdáun sem við njótum vegna þess árangurs sem við höfum náð við að rétta efnahag landsins við úr nær vonlausri stöðu að flestra mati.

Staða Grikklands og Kýpur

Nær öll ríki Evrópu eiga nú við efnahagsvanda að fást og nokkur þeirra eru svo illa stödd að þau þarfnast tafarlausrar aðstoðar. Ástandið í Grikklandi og á Kýpur er hrikalegt. Á Kýpur er atvinnuleysi ungs fólks yfir 50% , mennta-og heilbrigðiskerfið er í rúst og fólk flytur burt í leit að betra lífi þar sem það sér enga framtíð í sínu heimalandi. Bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt og mikill órói og óstöðugleiki er í báðum ríkjum sem erfitt er að segja til um hvernig þróast. Flóttamannastraumur til þessa svæðis hefur þar einnig áhrif. Fylgi við nýnasista eykst og andúð gegn minnihlutahópum eða útlendingum fer vaxandi með beinum ofbeldisverkum. Kýpur er sett slík ofurskilyrði fyrir aðstoð AGS og ESB að innviðir og grunnþjónusta eru í lögð í rúst. Sala ríkiseigna og einkavæðing blasir því við.

Íslenska leiðin

Hér á þingi Evrópuráðsins þekkja allir „íslensku leiðina“ þ.e. að verja grunnþjónustuna sem allra mest, að hækka skatta en hlífa þeim efnaminni, draga tímabundið úr opinberum framkvæmdum og síðast en ekki síst: einkavæða ekki opinbera þjónustu með sölu ríkisfyrirtækja. Okkur tókst það sem öðrum þjóðum hefur enn ekki tekist, þ.e. að brjótast út úr hefðbundnum ramma AGS.

Félagslegar áherslur og aðgerðir hafa skilað miklum árangri á skömmum tíma. Þeim efnaminni hefur verið hlíft, tekist hefur að verja grunnþjónustu og dregið hefur úr atvinnuleysi. Niðurskurðurinn var óhjákvæmilegur við ríkjandi aðstæður. En það skipti meginmáli að þá var við völd vinstri stjórn sem gætti þess að forgangsraða með jöfnuð, sjálfbærni og náttúruvernd að leiðarljósi. Hér á vettvangi Evrópuráðsþingsins er hvatt til þess að AGS og ESB hafi íslensku leiðina að leiðarljósi í þeim aðgerðum sem beitt er til „aðstoðar“ við skuldug ríki í stað þess að setja fram kröfur um harkalegan niðurskurð og sölu ríkiseigna. Afleiðingar slíkra þvingunaraðgerða geta orðið enn alvarlegri til lengri tíma litið en skuldastaðan í dag gefur tilefni til.

Pólitískar áherslur skipta máli bæði í kreppu og við uppbyggingu samfélagsins

AGS hafði sett okkur sömu skilyrði og Kýpur þegar núverandi ríkisstjórn tók við sem minnihluta stjórn í febrúar 2009. Með skýrum félagslegum áherslum og vilja til að ná tökum á ríkisfjármálum til lengri tíma litið tókst okkur að fá AGS til að fallast á „íslensku leiðina“. Að öllum öðrum ólöstuðum þá reyndi í öllu samningaferlinu ekki síst á þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon. Er nema von að litið sé til okkar með öfundaraugum og sem fyrirmyndar sem AGS o.fl. verði að líta til komi til efnahagslegra björgunaraðgerða einstakra þjóða.

Það er greinilegt af viðræðum mínum við fjölda fólks hér á þingi Evrópuráðsins að við hefðum ekki séð mikið af Steingrími á seinni hluta kjörtímabilsins ef hann hefði sinnt öllum þeim beiðnum sem til hans hafa borist um að flytja erindi um „íslensku leiðina“.

Það er ljóst að efnahaglegt áfall af þeirri stærðargráðu sem við urðum fyrir hlýtur að snerta alla þjóðina með einum eða öðrum hætti og það tekur tíma að vinna tapið upp.

Hrunið verður okkur enn dýrara en orðið er ef við lærum ekkert af reynslunni. Við viljum ekki aftur 2007 stemninguna, sem byggði á markaðshyggju og bóluhagkerfi og hefði leitt fjölda heimila í gjaldþrot þótt ekkert hrun hefði orðið.

Sjálfbærni, jafnrétti og félagslegt réttlæti verða að vera leiðarljós þjóða heims ef okkur á að takast að tryggja viðunandi lífsskilyrði næstu kynslóða. Þannig á hagstjórn að vera.

 

]]>
http://smugan.is/2013/04/hvers-vegna-er-horft-til-islensku-leidarinnar/feed/ 0
Svik Samfylkingarinnar í vatnsmálinu http://smugan.is/2013/04/svik-samfylkingarinnar-i-vatnsmalinu/ http://smugan.is/2013/04/svik-samfylkingarinnar-i-vatnsmalinu/#comments Thu, 25 Apr 2013 12:50:21 +0000 tka http://smugan.is/?p=99448

Katrín Júlíusdóttir fjármála-og efnahagsráðherra og fyrrum iðnaðarráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið 16. apríl sl. og gefur í skyn að hún og “jafnaðarmenn” hafi undið ofan af einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á vatni landsmanna. Það var að sjálfsögðu það sem kjósendur Samfylkingar og VG reiknuðu fastlega með að yrði eitt af fyrstu verkum nýrrar vinstri stjórnar. Greinin er hins vegar ósvífin tilraun af hálfu Katrínar til að þyrla ryki í augu almennings og eigna sér heiður af verkum sem hvorki hún né Samfylkingin hafa unnið. Í dag er allt grunnvatn og þar með drykkjarvatn landsmanna í einkaeigu landeiganda og hefur Katrín þó haft stöðu, tíma og þingmeirihluta til að breyta því. Það verður ekki dregin önnur ályktun en að þessari stöðu hafi hún annað hvort ekki viljað eða þorað að breyta.

Ryki kastað
Katrín hefur stutta lofgrein sína um eigin afrek með að lýsa því að “ófögur staða í auðlindamálum” hefði blasað við “jafnaðarmönnum” (les Samfylkingu?) eftir valdatíð Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks: “Heitt og kalt grunnvatn í iðrum jarðar hafði verið sett í einkaeign árið 1998, yfirborðsvatnið okkar hafði verið einkavætt með alræmdum nýjum vatnalögum árið 2006…”Hér kastar Katrín Júlíusdóttir meðvitað ryki í augu lesenda/kjósenda með stílbrögðum: Óhæfuverk Framsóknar og Sjálfstæðismanna eru að sjálfsögðu bitur sannleikur. Það er hins vegar rökrétt að lesandi álykti þegar hér er komið sögu í greininni, að Katrín/Samfylkingin hljóti að hafa gert eitthvað í málinu; lagfært “hina ófögru stöðu”, -greinin er jú skrifuð sem afrekaskrá Katrínar og Samfylkingarinnar. En glöggir lesendur taka eftir að hún botnar aldrei málið í greinni. Hin ófagra staða var að grunnvatnið /drykkjarvatnið hafði verið sett í einkaeign landeiganda 1998. Hin ófagra staða er að svo er enn og hvorki Katrín né Samfylking hafa breytt þar nokkru um. Þrátt fyrir samfellda setu Samfylkingar í ríkisstjórn síðan í maí 2007 og að Katrín hafi gegnt embætti iðnaðarráðherra frá maí 2009 til september 2012. Hvað vatnalög Valgerðar Sverrisdóttur frá 2006 áhrærir, þá hafði geysilegur þrýstingur úti í þjóðfélaginu sem og frá stjórnarandstöðu á Alþingi, neytt ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar til að setja þau lög á ís, Valgerðarlögin gengu m.ö.o. aldrei í gildi. Það gerðist áður en Samfylkingin gekk í ríkisstjórn (með Sjálfstæðisflokki). Þessi framsetning er því einungis tilraun til að villa um fyrir lesendum og Katrín treystir greinilega á að þeir lesi svona kosningagreinar hratt og flausturslega og ekki til enda.Yfirborðsvatn Katrínar
Sjónhverfingar Katrínar gagnvart lesendum ná hins vegar nýjum víddum þegar hún fer að ræða um “yfirborðsvatnið okkar…” sem “…hafi verið einkavætt með alræmdum vatnalögum…”. Hér gefur hún ótvírætt í skyn að styrrinn hafi staðið um “yfirborðsvatnið”, að það sé einhvers konar sögulega viðurkennt hugtak og þungamiðja átakanna um vatnið. Hér treystir Katrín á að lesendur séu ekki nægilega vel upplýstir um sögu vatnalaga á Íslandi um leið og hún gerir tilraun til að breiða yfir þau pólitísku mistök sem hún gerði í vatnamálinu. Nema að það hafi kannski verið stefna Samfylkingarinnar allan tíma að halda uppi þeim tilbúna aðskilnaði milli “yfirborðsvatns” og
“grunnvatns”, sem Finnur Ingólfsson fyrrv. iðnaðarráðherra gerði tilraun til að koma á, með lögunum um auðlindir í jörðu 1998. Hugtakið “yfirborðsvatn” hefur nefnilega aldrei verið til sem megininntak vatnalaga, fyrr en með þeim vatnalögum sem Katrín sjálf lagði fram og fékk
samþykkt 28. september 2011.

Tvenn lög um grunnvatn á sama tíma.
Þetta kallar á nokkrar útskýringar og sögulega upprifjun. Vatnalögin frá 1923 tóku til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Þau gengu út frá að landeigendur hafi afnotarétt af vatni, ekki eignarrétt á því. Enginn “átti” því vatn. Réttara er þó að segja, þegar litið er til þess anda sem í heild umlukti vatnalöggjöfina og aðra löggjöf sem tryggði sérhverjum þegni aðgang að lífsnauðsynlegu vatni, að allir hafi átt vatnið. Að fyrir lög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu 1998, hafi allt vatn í raun verið í þjóðareign. Sú túlkun er mun nærtækari en sú einkaeignartúlkun á afnotarétti sem margir lögfræðingar hafa aðhyllst. Má leiða að því getum, að sýn lögfræðinganna eigi rót að mestu í afskiptum þeirra af smáum nágrannaerjum um hvor eigi meiri rétt og þeim málarekstri og dómaframkvæmd sem af slíkum deilum spretta. Sá reynsluheimur nálgast að öðru jöfnu aldrei stóru spurninguna um hvort vatn er í þjóðareign eður ei og fer sínu fram hvort sem vatn er í þjóðareign eða ekki.

Næst gerist það að Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, ryðst inn á völlinn
með lagasetningu um auðlindir í jörðu árið 1998, þar sem hann gefur landeigendum allar þær náttúruauðlindir og öll þau verðmæti sem kunna að finnast undir yfirborði jarða þeirra, allt að jarðarmiðju. Grunnvatninu er skotið þar inn sem einni grein, án nokkurra tilrauna til að skýra tilveru
þess þar, hvorki með hliðsjón af vatni almennt eða gildandi vatnalögum frá 1923. Í raun var þá skyndilega komin upp sú staða að tvenns konar lög giltu um grunnvatn. Með lögunum frá 1998, einkavæddi Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stóran hluta af náttúruauðlindum Íslands, en spurningin
er hvort ekki hefði mátt reyna að hnekkja þeim síðar með tilvísun í að í gildi voru önnur lög í landinu sem tóku til sama efnis.

Hatrömm andstaða við einkavæðingu Valgerðar
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra leggur svo fram ný vatnalög, með þeirri réttlætingu að nauðsyn sé að samræma löggjöf á þessu sviði; það átti að sjálfsögðu að samræma í átt til eignarréttar. Það er hins vegar rétt að undirstrika að um var að ræða ein vatnalög sem taka til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Átti nú að láta sömu löggjöf gilda um vatn á yfirborði jarðar sem grunnvatnið, hvoru tveggja skyldi vera í skýrt skilgreindri einkaeign landeigenda.

Umsvifalaust hófst hart andóf út í þjóðfélaginu þar sem verkalýðsfélög, umhverfissamtök, þjóðkirkjan og mótmæltu eindregið. Bárust mótmælin inn á Aþingi, þar sem VG, stutt af Samfylkingu, mótmælti lögunum í einni lengstu umræðu um einstakt mál sem átt hefur sér stað á Alþingi. Niðurstaðan varð sú að vatnalög Valgerðar voru samþykkt 16. mars 2006, en gildistöku þeirra var frestað. Á meðan giltu vatnalögin frá 1923. Frá þessum tíma hafa vatnalögin alltaf verið á dagskrá, en gildistöku vatnalaga Valgerðar var ítrekað frestað, síðast 15. júní 2010 og áttu þau þá að taka gildi að óbreyttu 1. október 2011.

Krafan um ein vatnlög og afnotarétt
Allan þennan tíma, og ekki síst eftir að vinstri flokkarnir tóku við, ólu andstæðingar einkavæðingar á vatni með sér þá von að til yrðu ný heildstæð lög um vatn. Þau lög áttu fyrst og fremst að gera eitt; að breyta lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu þannig að ákvæðin þar um grunnvatn yrðu gerð
ógild. Grunnvatninu yrði komið þess í stað fyrir í nýjum vatnalögum og um það giltu sömu ákvæði og annað vatn, afnotaréttur en ekki eignarréttur.
Kröfur andstæðinga einkavæðingar á vatni voru grundvallaðar á tveimur meginpunktum; í fyrsta lagi bæri að líta á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki mætti fara með eins og hverja aðra verslunarvöru. Í öðru lagi væri fráleitt að tvenn lög með ólíkum eignar og
réttindaákvæðum giltu um vatn, eftir því hvort það finndist ofan eða neðanjarðar. Til að kippa þessu í liðinn þurfti í raun ekki annað en eina litla breytingartillögu við gildandi lög, menn voru í stórum dráttum sáttir þó vatnalögin frá 1923 stæðu óbreytt að öðru leyti. Hefði það verið gert, tækju vatnalögin á ný með skýrum hætti til alls vatns, auk þess sem mun auðsóttara hefði verið að koma í gegn breytingum á stjórnarskrá þess efnis að allt vatn skyldi vera í þjóðareign. Kröfur þess efnis höfðu reyndar borist stjórnarskrárnefnd í apríl 2005 frá BSRB og í mars 2006 frá fulltrúum
þeirra 14 félagasamtaka sem undirrituðu yfirlýsinguna Vatn fyrir alla. Studdust þessar kröfur m.a. við samþykktir Sameinuðu þjóðanna að líta bæri á aðgang að vatni sem grunndvallarmannréttindi.

Þjóðin afvegaleidd
Þegar Katrín Júlíusdóttir fékk síðan vatnalagafrumvarp sitt samþykkt í september 2011, var sterklega gefið í skyn að nú væri vatnið í höfn, einkavæðing vatns hefði verið afnumin. Lögin frá 1923 væru aftur gengin í gildi, aðeins “betrumbætt”. Aftur gilti að landeigendur hefðu afnotarétt að
vatni, ekki eignarrétt. Um þetta sagði m.a. í frétt RÚV: “Ný vatnalög voru samþykkt á Alþingi í gær og eru þau sögð snúa við þróun í átt að einkarétti á auðlindinni.” Vandlega var hins vegar þagað um að allt grunnvatnið, þaðan sem allt drykkjarvatn okkar kemur, var enn í einkaeigu landeiganda og að hvergi hafði verið haggað við lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu. Það var reyndar afsakað með óbeinum hætti; ekki hefði gefist tími til að vinna “heildstætt” vatnafrumvarp, stjórnvöld hefðu verið nauðbeygð til að samþykkja lög Katrínar því annars hefðu vatnalög Valgerðar gengið í gildi
þann 1. október 2011.

Yfirvarp og ágreiningur
Þessi meinti tímaskortur var að sjálfsögðu yfirvarp. Hann var yfirvarp því Samfylkingin hafði jú setið í ríkisstjórn frá maí 2007, og þó svo flokkurinn hefði kannski ekki komist langt í málinu með Sjálfstæðisflokkinn, að þá hafði hún jú setið að völdum með sálufélaga sínum í málinu, VG, frá febrúar 2009. Hæg hefðu heimatökin átt að vera.

Og mikið rétt, til urðu svokallaðar Vatnalaganefndir og skilaði sú seinni nýjum heildstæðum vatnalögum til iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, þann 1. desember 2009. Í frumvarpi nefndarinnar, en í henni áttu sæti Lúðvík Bergvinsson lögmaður sem jafnframt var formaður, Aagot V. Óskarsdóttir lögfræðingur, Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, Kristinn Einarsson yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, var tekið á vernd og nýtingu vatns, sem og rétti almennings og landeiganda. Niðurstaðan var í stuttu máli sú lögin taka yfir allt vatn, yfirborðsvatn sem grunnvatn og um það vatn allt skyldi gilda afnota- og umráðaréttur – ekki eignarréttur. Skyldu menn nú ætla að björninn hefði verið unninn og lögin samþykkt hið snarasta? Það var aldeilis ekki – af einhverjum dularfullum ástæðum – trúlega réði skæklatog milli ráðuneyta þar miklu, var frumvarpinu stungið ofan í skúffu og það aldrei nefnt oftar, hvað það að það hefði verið lagt fram á Alþingi! Frumvarpið var “heildstætt vatnalagafrumvarp” og tók því með all ítarlegum hætti á vatnsverndarmálum og stjórnun þeirra. Gert var ráð fyrir að lögin heyrðu undir iðnaðarráðherra, en þann 25.11. 2010 lagði umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram frumvarp um Stjórn vatnamála og var ekki laust við að þau lög sköruðust við lagafrumvarp Lúðvíks. Í öllu falli var seinna frumvarpinu hent og flaut þá barnið út með baðvatninu.

Katrín ítrekaði aðskilnað vatns
Katrín lagði svo fram frumvarp til vatnalaga í ríkisstjórninni strax í febrúarbyrjun 2011 og brá þá svo við að hvergi er minnst á nauðsyn þess að breyta lögum um grunnvatn eða leggja fram heildstæð lög um vatn. Þvert á móti. Í lögunum voru þau nýmæli að í stað þess að fjalla um “vatn” (allt vatn) eins og lögin frá 1923 gerðu, var komið hugtakið “yfirborðsvatn” sem megininntak. Þar með var aðskilnaðurinn milli grunnvatns og annars vatns ítrekaður og undirstrikaður. Gengu höfundar laganna þar mjög langt í þeirri túlkun sinni að vatnalögin frá 1923 fjölluðu á engan hátt um grunnvatnið. Það var þó meira gert til þess að reyna að réttlæta þá ætlan að grunnvatnið skyldi
liggja óhreyft í einkaeigu, en að þeirri skoðun væri hægt að finna stað í vatnalögunum frá 1923. Reyndar þarf þessi tilraun til að passa upp á eignarrétt landeiganda ekki að koma mjög á óvart, þar sem Katrín hafði ráðið til verks sérstakan áhugamann og varðgæslumann einkaréttarins, lögfræðinginn Karl Axelsson, þann sama og var aðalhöfundur vatnalaga Valgerðar Sverrisdóttur.

Ögmundur einn á vaktinni
Upphaflega stóð til að reka þetta lagafrumvarp hratt í gegnum ríkisstjórnina í febrúarbyrjun 2011 og fengu ráðherrar örfáa daga til að gera athugasemdir við “yfirborðs”-frumvarpið. Sem betur fer var Ögmundur Jónasson á vaktinni eins og oft áður. Hann gerði strax kröfu til þess að lögum um auðlindir í jörðu yrði breytt, að grunnvatn yrði sett inn í vatnalögin og um það giltu sömu ákvæði um afnotarétt eins og annað vatn. Við þessum kröfum var ekki orðið. Gerði Ögmundur þá að skilyrði fyrir samþykki sínu við vatnalög Katrínar að það yrði gefið loforð um upptöku auðlindalaganna. Gerði Ögmundur tillögu að orðalagi þessa loforðs, sem yrði hluti af skýringum við lögin þar sem stóð:
Stefnt er að endurskoðun á lögum nr. 57 frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu með það fyrir augum að tryggja almannarétt varðandi grunnvatn með eigi lakari hætti en í þessu frumvarpi. Líta ber á vatn sem mannréttindi sem heyri öllu samfélaginu til og byggi öll lög sem snúa að vatni á þeirri nálgun.” Þetta skýra og afdráttarlausa orðalag gat iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir ekki sætt sig við. Þess í stað lagði hún til mun loðnara orðalag, sem gaf lögfræðingum mun meira svigrúm til að verja eignarréttinn:“Unnið er að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með það fyrir augum að samræma réttarreglur á þessu sviði í þeim anda sem lagt er til með frumvarpi þessu.”
(Hvers vegna skyldi ég vita þetta? Svo vill til að Ögmundur kallaði mig sér til aðstoðar í þessu máli, enda vorum við nánir samstarfsmenn um árabil hjá BSRB sem í tíð Ögmundar lét sig mjög varða auðlindamál og þá ekki síst vatnið. Var m.a. efnt til mikillar herferðar um vatnið og þess krafist að það skyldi vera í almannaeign. Þetta skýrir hvers vegna ég þekki þessa texta sem ég vísa til. Saman rýndum við í frumvarpstexta og greinargerðir. Ég tel mig ekki bundinn af trúnaði um þessa texta og þessi samskipti enda hvers vegna ætti svo að vera? Mér finnst mikilvægt að þessi hörmungarsaga verði öll rækilega skráð – því af henni verður að draga lærdóma. Við erum að tala um fjöregg þjóðarinnar og því miður um ríkisstjórn sem hefur brugðist því hlutverki sínu að gæta þess. )

Afnotaréttur jafngildir eignarrétti!
Þetta orðalag var svo samþykkt sem hluti af skýringum við vatnalögin og á grundvelli þess var svo skilgreint hlutverk “grunnvatnsnefndar” sem Katrín skipaði skömmu síðar til að gera tillögur. Formaður nefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., formaður, en auk hans sátu Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar við Háskólann í Reykjavík, og Ingvi
Már Pálsson, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu í hópnum. Þeir Ástráður og Ingvi voru meðhöfundar að vatnalögunum, svo varla hefur Katrín verið að sækjast eftir við róttækum breytingum á hugsun eða efnistökum með ráðningu þeirra.

Meginniðurstöður grunnvatnsnefndarinnar eru tvær; annars vegar hin “augljósa”, að rétt sé að
grunnvatn eigi heima með öðru vatni í lögum. Hins vegar kemst hópurinn að þeirri niðurstöðu að þó svo kalla megi eignarheimildir landeiganda “afnotarétt” þá rýri það í engu eignarrétt þann sem þeir voru taldir hafa samkvæmt lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998! Þessum tillögum skilaði
grunnvatnsnefndin eftir u.þ.b. átta mánaða vinnu, í maí 2012. Þá átti Katrín eftir að sitja 8 mánuði í embætti iðnaðarráðherra, en virðist ekkert hafa aðhafst frekar í málinu.

Steingrímur sammála Valgerði?
Ríkisstjórnin gerði svo ekkert með málið, fyrr en á síðustu dögum Alþingis í mars 2013 þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram tillögu um breytingar á vatnalögum frá 1923 og á lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998. Var þar lagt til að grunnvatn skuli fært undir vatnalögin. Á það frumvarp var ekki lögð meiri áhersla en svo að það dagaði uppi án þess að hljóta samþykki. Sem kannski var þó ekki það versta sem gat gerst, sökum þess hvernig frumvarpið var gert úr garði. Þar er í öllu byggt á niðurstöðu “grunnvatnsnefndar” og í skýringum með frumvarpinu er ítrekað að þrátt fyrir “nafnabreytingu” úr eignarrétti yfir í afnotarétt, þá skuli breytingin skilin svo að um enga efnisbreytingu sé að ræða! Grunnvatnið sé de facto, eftir sem áður, í einkaeign landeiganda! Grunnvatnsnefndin bætir eiginlega um betur: Í greinargerð með frumvarpi Steingríms má lesa: “Í skýrslu starfshópsins (grunnvatnsnefndar) kemur jafnframt fram að deila megi um hvort með setningu laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, hafi í raun orðið breytingar á eignarréttarlegri stöðu grunnvatns. Færa megi rök fyrir því að hún hafi ekki breyst við setningu auðlindalaga.” Hér er formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, sá hinn sami og kallaði auðlindafrumvarp Finns Ingólfssonar “ómerkilegt snifsi” 1998, að leggja fram frumvarp sem
efnislega tekur undir allan þann rökstuðning sem Valgerður Sverrisdóttir notaði á sínum tíma þegar hún lagði fram sín vatnalög: Að breytingin sem lögð var til 2006 á vatnalögum frá 1923 hafi aðeins verið orðalagsbreyting. Að afnotaréttur sé í reynd eignarréttur og að vatnalögin 2006 hafi eingöngu
verið til að skýra þessa staðreynd.

Vinstri flokkarnir í hring, Valgerður vann!
Með þessari málsmeðferð allri eru Samfylking og VG, vinstri flokkarnir sem svo hatrammlega börðust gegn einkavæðingarfrumvarpi Valgerðar Sverrisdóttur, komnir í heilan hring. Með því að ætla að samþykkja yfirfærslu á grunnvatni inn í vatnalög, þar sem afnotaréttur á grunnvatni er útskýrður sem de facto einkaeignarréttur, þá er þess skammt að bíða að upp komi kröfur á nýjan leik
um að sá skilningur eigi líka að gilda um “afnotarétt” manna á “yfirborðsvatni”. Bingó! Valgerður, Halldór og Finnur unnu!

Auðvelt að ræna þjóðina rétti sínum

Það sem að þessi atburðarás sýnir þó merkilegt nokk, að það er reginmunur á þessum tveimur hugtökum, afnotarétti og eignarrétti. Samkvæmt upprunalegu vatnalögunum frá 1923 áttu landeigendur ekki vatnið, þeir höfðu af því afnotarétt. Og fyrst landeigendur áttu ekki landið má spyrja hver hafi átt það þá? Nærtækast er að álykta að vatnið hafi defacto verið í þjóðareign. Þegar Finnur Ingólfsson setur síðan í lög með einu pennastriki, að grunnvatnið sé í einkaeign, sveipar hann þennan hluta vatnsins lagahjúp eignarréttar, án þess þó að gera neinar breytingar á gömlu vatnalögunum sem kváðu í raun á um að allt vatn, grunnvatn meðtalið, væri allra “eign”. Það er þessi lagahjúpur einkaeignar sem Samfylkinguna hefur skort þor og kjark að rífa í sundur. Samfylkingin gat því með auðveldum hætti “fært aftur” til fyrra horfs þann hluta vatnsins sem alltaf hafði verið “í þjóðareign” og landeigendur höfðu haft afnotarétt á. Þegar kom hins vegar að því að færa grunnvatnið úr einkaeign yfir í afnotarétt, þá gekk dæmið ekki lengur upp, nema því aðeins að skilgreina afnotarétt sem eignarrétt. Það virðist sem sagt eiga að vera hægðarleikur að breyta afnotarétti í eignarrétt, eins og Valgerður vildi gera, en ekki er hægt að fara sömu leið til baka og breyta eignarrétti í afnotarétt. Það er sem sagt mun auðveldara að ræna þjóðina rétti sínu en einkaaðila.

Vatnsbragð Samfylkingarinnar
Það er því lýðskrum af versta tagi þegar Katrín Júlíusdóttir lætur í veðri vaka að hún hafi snúið ofan af einkavæðingu Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks á vatninu. Reyndar er það spurning hvort þetta sé samræmd framsetning hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar, því Sigríður Ingibjörg Ingadóttir notaði nákvæmlega sömu taktík á frambjóðendafundi í Sjónvarpinu nýverið þar sem hún sagði efnislega það sama: Munið hvernig þetta var þegar við tókum við – Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru búnir að einkavæða vatnið… en síðan var þessi þarfa áminning með engu botnuð. Það er bara látið liggja að því að Samfylkingin hafi bjargað málunum!

Á að stjórnarskrárbinda einkaeign á vatni?
Það er hins vegar full þörf á að botna þessi mál. Það verður ekki gert með að láta sömu lögfræðingana innan og utan ráðuneyta leggja á ráðin. Það verður ekki gert með að stjórnmálamenn komist upp með að segja eitt í gær og gera annað á morgun – eða gera hreinlega ekki neitt. Það verður ekki gert með að hlusta bara á “nýtingarsjónarmið” fulltrúa orkugeirans – sem gegnsýra
vatnlög Katrínar. Það verður ekki gert með því að láta fulltrúa sjónarmiða Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, hægri sinnaðra Samfylkingarmanna í stjórnlagaráði komast upp með að gera ólög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu að lagagrunni þjóðarinnar í nýrri stjórnarskrá. Hver skyldi hafa komið þeirri tillögu í gegn á þeim bæ að aðeins “…auðlindir, sem ekki eru í
einkaeign
, skuli vera í eigu þjóðarinnar…”? Halda menn kannski að færri hefðu tekið undir málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef spurning hefði verið: “Eiga náttúruauðlindir að vera í eigu þjóðarinnar”?

Engin gætir hagsmuna almennings…
Það er hins vegar úr vöndu að ráða. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki skipt um skoðun í málinu svo vitað sé. Samfylkingin og VG hafa ekki náð að koma vatninu í örugga höfn og virðast reyndar stefna með það beina leið út á ólgusjó einkavæðingar á nýjan leik. Enginn af nýju flokkunum hefur tekið málið upp á sína arma – enn sem komið er. Það er því aðeins fólkið í landinu
sem getur tekið af skarið, jafnvel þó reynt sé að afvegaleiða almenning með ýmsum hætti.

… nema almenningur sjálfur. Látið í ykkur heyra!
Grunnvatnið er allt í einkaeign landeiganda og um það ástand standa öflugir varðhundar á vakt. Þeir gelta hins vegar ekki hátt þessa dagana, því þeir vilja ekki draga athyglina að málinu. Þeir vita eins og er að þjóðin vill að vatnið, rétt eins og aðrar náttúruauðlindir, sé og verði í eigu þjóðarinnar. Það er því undir þér komið, kæri lesandi, að gera þitt til að vekja athygli á málinu og koma því á dagskrá fyrir Alþingiskosningar. Við viljum ekki að almannahagsmunir verði fyrir borð bornir!

]]>
http://smugan.is/2013/04/svik-samfylkingarinnar-i-vatnsmalinu/feed/ 0