Smugan » Huginn Freyr Þorsteinsson http://smugan.is Vefrit um pólítík og mannlíf Tue, 30 Apr 2013 22:00:37 +0000 is-IS hourly 1 http://wordpress.org/?v=3.4.2 Tennur og samfélag http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/ http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/#comments Wed, 24 Apr 2013 13:44:12 +0000 tka http://smugan.is/?p=99396 Sagt er að fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme, hafi eitt sinn bent á mikilvægi þess að allir borgarar óháð stétt og stöðu hefði aðgang að tannlækningum. Hugsun Palme var að stéttarmunur ætti ekki sjást á brosi fólks og samfélag þar sem tiltekinn hluti þegnanna skammaðist sín fyrir að brosa væri einfaldlega ekki gott samfélag. Að baki þessari hugsun eru gildi sem félagshyggjufólk sameinast en þau eru að ójöfnuður í samfélagi er óæskilegur og hindrar fólk í því að blómstra og þroska hæfileika sína. Þess vegna hefur ríkið veigamiklu hlutverki að gegna við að stuðla að tekjujöfnun og bjóða upp á þjónustu fyrir alla borgara þess óháð efnahag.

Það var því sérlega ánægjulegt þegar  velferðarráðherra undirritaði nýverið samkomulag við tannlækna um þjónustu við börn. Slíkur heildarsamningur hafði ekki verið gerður í 21 ár eða á þeim árum er rappsveitin „Tennurnar hans afa“ flutti tónlist sem taldist í meira lagi framúrstefnuleg. Ekki gafst tími til slíkra samninga á útrásarárunum enda voru félagsleg gildi á mektarárum útrásarhagkerfisins voru talin álíka lífvænleg og risaeðlur. Fáir töluðu fyrir þessum gildum og enn færri höfðu sjálfstraust til að benda á þær hættur sem fólust í markaðsvæðingu alls samfélagsins. Ríkisvæðing tannlækninga var því líklega neðarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar ef þær komust yfir höfuð á blað. Áherslurnar lágu annars staðar eins og í að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins – stað þar sem útrásarvíkingar allra landa gætu sameinast.

Til samræmis við þessar áherslur var búið til hagfellt útrásarskattkerfi m.a. með því að lækka skatt á fjármagn niður í 10%. Þetta átti að laða til landsins fjármagn og örva atvinnurekstur eða stækka kökuna eins og það er orðað. Fjármagnið kom vissulega, m.a. í formi jöklabréfa,  sem eru orðin að miklum höfuðverk innan gjaldeyrishafta, og fjármagnskerfið í heild þandist út með vel þekktum afleiðingum. Hvar á hinni víðfrægu Laffer kúrfu, sem var notuð til réttlætingar á þessum skattalækkunum, efnagshrunið lenti er spurning sem enn stendur ósvöruð. Samt bjóða hrunflokkarnir, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, upp á sama matseðil í kosningunum og fyrir hrun.

Líklegast hefðu skattahækkanir á þessum tíma slegið á ofþensluna. Og það sem meira er að þá hefði hækkun á fjármagnstekjuskatti upp í 15% á þessum árum dugað fyrir tannlækningum barna og fullorðinna. En áhugi á tannhirðu var fremur lítill og sennilega aðeins átt upp á pallborðið ef að sannast hefði að gullát bankamanna væri skaðleg tannheilsu.

Skattahækkanir voru álitnar ógn við þetta samfélag.  Forvígismenn brauðmolakenningarinnar í hagfræði prédikuðu að þær væru allar stórvarasamar enda myndu skattahækkanir gera stækkun kökunnar ómögulega. Og það væru bara öfundarmenn á vinstri vængnum sem vildu minni köku enda allir píetískir í eðli sínu. Það má kallast undravert hversu brauðmolamennirnir náðu langt í sínum málflutningi þrátt fyrir hin hrópandi ójöfnuð sem hreiðraði um sig í útrásarsamfélaginu. Vissulega stækkaði kakan en vandinn var sá að bitarnir, sem almenningur fékk, voru svo miklu minni og í sumum tilfellum engir  en þeirra er bárust mest á í skattfrelsinu. Ekki birtist þessi ójöfnuður einungis í mælingum félagsvísindamanna  og hagfræðinga, í svonefndum Gini stuðli, heldur blasti hann við á forsíðum slúðurblaða. Og samfélag ójafnaðar, eins og Palme benti á, er vont samfélag því það er ekki samfélag fyrir alla.

Ein birtingarmynd  þessa ójafnaðar var þegar brast á samkeppni milli útrásarvíkinga um hver gæti haldið veglegasta afmælið. Þannig fengu hinir farsælu Landsbankafeðgar rappara sem kennir sig við fjármagnsstærð,  50 cent, til að syngja fyrir gesti sína. Sá var frá Ameríku en þar eru menn komnir svo langt frá félagslegri sýn Palme að frægir rapparar eru í krafti auðs síns með gullgóma.  Myndir af þeim feðgum ásamt rapparanum með stóra vindla áttu að vera til merkis um yfirburði íslenska útrásarkerfisins. En í raun sýndu myndirnar félagslegt gjaldþrot samfélags. Síðar fór það í peningalegt þrot.

Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað skatta á fjármagn upp í 20% en hlífir sparnaði hins venjulega launamanns með frítekjumarki. Það ásamt ýmsum öðrum breytingum á sviði skattamála hefur aukið jöfnuð í samfélaginu og einnig gert það mögulegt, þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður í ríkisfjármálum, fyrir börn að fara til tannlæknis með stuðningi frá hinu opinbera.  Þó það sé ekki stærsta mál kjörtímabilsins sýnir sá gjörningur ásetning stjórnvalda um að bæta samfélag okkar allra ekki bara sumra.

Huginn Freyr Þorsteinsson

]]>
http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/feed/ 0
Yfirboð í aðdraganda alþingiskosninga á Íslandi http://smugan.is/2013/03/yfirbod-i-addraganda-althingiskosninga-a-islandi/ http://smugan.is/2013/03/yfirbod-i-addraganda-althingiskosninga-a-islandi/#comments Thu, 28 Mar 2013 16:13:19 +0000 tka http://smugan.is/?p=97039 Yfirboð, sölumennska og atkvæðakaup eiga sér langa sögu í íslenskum stjórnmálum. Flestir eru sammála um að þetta hafi náð hámarki árið 2003 þegar Framsóknarflokkurinn fékk verðlaun fyrir bestu sölumennskuna það árið, verðlaun sem tileinkuð eru fyrirtækjum sem selja vöru á markaði. Flokkurinn seldi þjóðinni það að 90% húsnæðislán væru góð hugmynd með vel útfærðum sjónvarpsauglýsingum. Reyndar hlaut flokkurinn mikla samkeppni í atkvæðakaupunum þetta árið því Sjálfstæðisflokkurinn gekk mjög langt í loforðum um skattalækkanir auk þess sem flokkarnir buðu saman upp á Kárahnjúkavirkjun og risaálver.

Því miður stóðu flokkarnir við stóru orðin og er það óumdeild staðreynd að það er ein helsta ástæða þess að íslenskt efnahagslíf lenti í þeim ógöngum sem enduðu með hruni árið 2008. Bjartsýnismenn um manneðlið töldu að með þessu yrði yfirboðum í kosningum ekki jafnvel tekið.

Í kosningunum 2009 voru engin verðlaun veitt fyrir góða sölumennsku. Flokkarnir voru fremur lágstemmdir í kosningaloforðum enda fremur erfitt að lofa öllum öllu nokkrum mánuðum eftir að hagkerfið hafði bókstaflega bráðnað. Formaður Framsóknarflokksins dó þó ekki ráðalaus. Í stað þess að lofa öllu fögru lofaði hann því gagnstæða og reyndi að hræða líftóruna úr kjósendum með neikvæðu yfirboði. Hann gekk um með auknum þunga allt fram á kjördag og sagði annað hrun vera í vændum. Ástæða hins nýja hruns væri að hinir nýstofnuðu bankar hefðu tekið við lánasöfnum frá gömlu bönkunum á yfirverði. Því stæði nýja bankakerfið á brauðfótum og skynsamlegast að veifa hvíta flagginu. Ísland væri svo gott sem búið að vera.

„Niðurstaðan er sú að matið á íslensku bönkunum og stöðu íslenskra fyrirtækja er það að hér sé að hefjast fullkomið kerfishrun. Allsherjarhrun íslensks efnahagslífs.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 23. apríl 2009.

Sem betur fer rættist dómsdagsspá formannsins ekki heldur hefur þvert á móti ræst vel úr íslensku fjármálakerfi. Reyndar er gangurinn svo góður að nú vill sami formaður, og spáði öðru hruni árið 2009, nota hagnað bankanna til aðgerða fyrir heimilin. Og þá er ástæða til að hverfa aftur til tíma hinna glórulausu yfirboða.

Í nýlegu viðtali á Bylgjunni sagði Sigmundur Davíð að ríkisstjórnin hefði glatað tækifærum með því að kaupa ekki skuldabréf á hina föllnu banka árið 2009. Nú er sagan orðin sú að lánasöfnin voru yfirfærð úr gömlu bönkunum yfir á þá nýju á undirverði og heimilin eigi að njóta þess hagnaðar sem sá afsláttur hefur skilað bönkunum í hagnað. Þannig væri hagnaðurinn vegna þessa 300 milljarðar frá árinu 2009.

Nú er það svo að nýju bankarnir hafa rétt betur úr kútnum en margir þorðu að vona og liggur skýringin í því að efnahagslífið hefur náð sér á strik. Meðal annars hefur það gert fjármálastofnunum kleift að færa niður yfir 100 milljarða af gengis- og verðtryggðum lánum.  Það er því grátbroslegt í ljósi fyrri dómsdagsspá að vegna betra gengis í íslensku efnahagslífi telji Framsóknarflokkurinn að hann geti þessi til viðbótar fært niður lán heimilanna um mörg hundruð milljarða. Gangur íslensks hagkerfis er í raun svo góður að mati Framsóknar að hundruðir milljarðar eru til reiðu til að færa niður lán heimilanna.

En fleira undravert gerist í þessum hugarheimi. Við það eitt að lífeyrissjóðir landsins sýna þessum bönkum áhuga vegna þeirra eigna og fjármuna sem Framsókn ætlar að nota í úrræði sín fullyrða þeir að upp sé komið nýtt Icesave mál. Að vísu getur enginn útskýrt hvernig þessi tvö mál tengjast enda gera þau það ekki. Áhugi lífeyrissjóðanna á bönkunum stafar af því sem alþjóð er orðið kunnugt um að kröfuhafar þeirra banka munu þurfa að þola miklar afskriftir á eign sinni í þeim. Seðlabankastjóri hefur lýst þessu yfir, sem og sendi nefnd allra þingflokka á Alþingi um afnám gjaldeyrishafta, formönnum flokkana opið bréf sem gerði kröfuhöfum ljóst að þeir myndu búa við gjaldeyrishöft um langa framtíð nema ef þeir sættu sig við afskriftir. Vegna þessa sjá lífeyrissjóðirnir fram á ríkulega ávöxtun á eignum bankanna og vita jafnframt að kröfuhafarnir eru komnir upp við vegg. Það er þó full ástæða til að átta sig betur á hugmyndum lífeyrissjóðanna enda væri eðlilegast að ríkið eignaðist bankana með sem mestum afslætti. Vonandi gæti þá ríkið létt mikið af skuldum sínum vegna hrunsins sem og létt af þrýstingi krónunnar með því að losa um eignarhald erlendu kröfuhafanna. Og þá yrði bankakerfið, sem Framsóknarflokkurinn einkavæddi á sínum tíma í einu af kosningaloforðabríeríum sínum með Sjálfstæðisflokknum, aftur í eigu almennings.

 

 

 

 

]]>
http://smugan.is/2013/03/yfirbod-i-addraganda-althingiskosninga-a-islandi/feed/ 0