Smugan » Fastir pennar http://smugan.is Vefrit um pólítík og mannlíf Tue, 30 Apr 2013 22:00:37 +0000 is-IS hourly 1 http://wordpress.org/?v=3.4.2 Og enn bulla þeir http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/ http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/#comments Fri, 26 Apr 2013 16:12:38 +0000 tka http://smugan.is/?p=99577 Það ætlar enginn endir að verða á tilraunum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna til að afvegaleiða umræðuna um Rammaáætlun. Báðir flokkarnir hafa lýst því yfir að þeir ætli að rjúka til og breyta niðurstöðum hennar um leið og þeir fá völd til þess. Ástæða sem þeir gefa upp er að áætlunin hafi verið tekin úr faglegum farvegi. Kannski vita þeir ekki hvað það þýðir eða kannski er þeim bara sama um sannleikann í þessu máli. Við skulum því fara yfir þetta einu sinni enn, þeim til upplýsingar og lesendum til glöggvunar á þeim blekkingum sem er beitt.

Rammaáætlun var faglegt ferli. Faglegheitin varðandi áætlunina fólust í því verkferli sem ákveðið var. Í því áttu að taka þátt hagsmunaaðilar og vísindamenn, að vísu ekki margir hugvísinda- eða félagsvísindamenn. Vinnan þessa fólks átti að leiða að niðurstöðum eftir ákveðnum ferli.

Fagmenn sem fjölluðu um virkjanahugmyndir Rammaáætlunar unnu í faghópum. Hóparnir voru 4 og gerðu hver um sig ákveðna röðun sem fór síðan til verkefnisstjórnar sem átti að vinna úr þessu. Í verkefnisstjórn voru fulltúar stjórnmálamanna, stofnana og hagsmunaaðila. Þeir áttu að raða í flokka. Þó þar hafi allir verið fagmenn eða fræðimenn á ákveðnum sviðum var verkefnisstjórnin fyrst og fremst samsafn hagsmuna sem átti að reyna að komast að málamiðlun innan hópsins – vísindalegt eða hvað? Þessi hópur vann þó, er upp var staðið, ekki verkið sjálfur heldur sérstakur hópur þar sem hluti verkefnisstjórnar og nokkrir utanaðkomandi ákváðu leikreglur og röðuðu síðan. Faglegt? Síðan höfðu allir stjórnmálaflokkar samþykkt að almenningur ætti að fá aðgang að ákvarðanaferlinu og það var gert. Tekið var tillit til athugasemda og nýrra upplýsinga. Að fylgja þessum leikreglur er kallað ófaglegt. Merkilegt! Breytingar frá niðurstöðum flokkunarhópsins voru allar í átt til varúðar, í samræmi við anda varúðarreglu og á grunni nýrra upplýsinga. Faglegt – og heiðarlegt líka. Lokagerð verksins var því tilraun til að gera niðurstöðuna faglega aftur því þar með var reynt að fylgja leikreglum sem Alþingi hafði samþykkt þegar út af þeim hafði verið vikið á ófaglegan hátt.

Þessu vilja þessir tveir flokkar breyta nú af því þeir eru pólitískt ósáttir við niðurstöðuna. Faglegt? Og það er ekki síður merkilegt að það sem þeir kalla faglegt er niðurstaða vinnu sem tekin var út úr faglega ferlinu sem búið var að ákveða fyrirfram og setja í erindisbréf verkefnisstjórnar. Það er margbúið að benda á þessar staðreyndir en söngurinn er endurtekinn í síbylju því Göbbelskur áróður gengur út á að endurtaka bullið svo oft að menn meðtaki það sem sannleika. Heiðarlegt? Hróp um faglegheitin eru notuð sem sauðargæra úlfsins og fullyrðingin um að orkuvinnsla á Íslandi gefi bara græna orku notuð til að krydda. Þá skiptir heldur engu máli að færustu jarðhitasérfræðingar okkar sem ekki vinna hjá orkufyrirtækjum segja að raforkuframleiðsla með jarðhita sé í raun námagröftur og því ekki sjálfbær eða græn. Sama síbyljan.

Ef Milljarðamæringaforingjarnir ætla að segja rétt frá ættu þeir það miða frásögn sína í framtíðinni við staðreyndina að það stóð aldrei til að vísindamenn sem unnu fyrir verkefnisstjórn Rammaáætlunar gengju frá lokaflokkun heldur átti niðurstaðan að vera málamiðlun hjá hagsmunaaðilum. Svo er það bara spurningin hvort þeir hafa áhuga á að segja satt. Þeir hafa lítið sýnt það í þessu máli fram að þessu. Það er því nauðsynlegt fyrir almenning að muna að ástæðan fyrir því að þeir vilja breyta niðurstöðum Rammaáætlunar er ekki taumlaus þrá þeirra eftir faglegum niðurstöðum heldur ákafi þeirra í að breyta þeim í anda pólitískra markmiða sinna svo aftur sé hægt að hefja ný „Kárahnjúkaævintýri“ og drepa fleiri vatnasvið. Kjósendur sem ætla að greiða þessum flokkum atkvæði sitt ættu að muna hvað það þýðir fyrir umhvið ef loforðapakkinn glepur mönnum sýn og verða að horfast í augu við þá ábyrgð sem þeir axla ef þeir ætla að skapa Framsóknarmönnum og Sjálfstæðinmönnum skilyrði til að valsa um íslenska náttúru á nýjan leik til að rústa hana og hagkerfið í leiðinni.

]]>
http://smugan.is/2013/04/og-enn-bulla-their/feed/ 0
Tennur og samfélag http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/ http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/#comments Wed, 24 Apr 2013 13:44:12 +0000 tka http://smugan.is/?p=99396 Sagt er að fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme, hafi eitt sinn bent á mikilvægi þess að allir borgarar óháð stétt og stöðu hefði aðgang að tannlækningum. Hugsun Palme var að stéttarmunur ætti ekki sjást á brosi fólks og samfélag þar sem tiltekinn hluti þegnanna skammaðist sín fyrir að brosa væri einfaldlega ekki gott samfélag. Að baki þessari hugsun eru gildi sem félagshyggjufólk sameinast en þau eru að ójöfnuður í samfélagi er óæskilegur og hindrar fólk í því að blómstra og þroska hæfileika sína. Þess vegna hefur ríkið veigamiklu hlutverki að gegna við að stuðla að tekjujöfnun og bjóða upp á þjónustu fyrir alla borgara þess óháð efnahag.

Það var því sérlega ánægjulegt þegar  velferðarráðherra undirritaði nýverið samkomulag við tannlækna um þjónustu við börn. Slíkur heildarsamningur hafði ekki verið gerður í 21 ár eða á þeim árum er rappsveitin „Tennurnar hans afa“ flutti tónlist sem taldist í meira lagi framúrstefnuleg. Ekki gafst tími til slíkra samninga á útrásarárunum enda voru félagsleg gildi á mektarárum útrásarhagkerfisins voru talin álíka lífvænleg og risaeðlur. Fáir töluðu fyrir þessum gildum og enn færri höfðu sjálfstraust til að benda á þær hættur sem fólust í markaðsvæðingu alls samfélagsins. Ríkisvæðing tannlækninga var því líklega neðarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar ef þær komust yfir höfuð á blað. Áherslurnar lágu annars staðar eins og í að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins – stað þar sem útrásarvíkingar allra landa gætu sameinast.

Til samræmis við þessar áherslur var búið til hagfellt útrásarskattkerfi m.a. með því að lækka skatt á fjármagn niður í 10%. Þetta átti að laða til landsins fjármagn og örva atvinnurekstur eða stækka kökuna eins og það er orðað. Fjármagnið kom vissulega, m.a. í formi jöklabréfa,  sem eru orðin að miklum höfuðverk innan gjaldeyrishafta, og fjármagnskerfið í heild þandist út með vel þekktum afleiðingum. Hvar á hinni víðfrægu Laffer kúrfu, sem var notuð til réttlætingar á þessum skattalækkunum, efnagshrunið lenti er spurning sem enn stendur ósvöruð. Samt bjóða hrunflokkarnir, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, upp á sama matseðil í kosningunum og fyrir hrun.

Líklegast hefðu skattahækkanir á þessum tíma slegið á ofþensluna. Og það sem meira er að þá hefði hækkun á fjármagnstekjuskatti upp í 15% á þessum árum dugað fyrir tannlækningum barna og fullorðinna. En áhugi á tannhirðu var fremur lítill og sennilega aðeins átt upp á pallborðið ef að sannast hefði að gullát bankamanna væri skaðleg tannheilsu.

Skattahækkanir voru álitnar ógn við þetta samfélag.  Forvígismenn brauðmolakenningarinnar í hagfræði prédikuðu að þær væru allar stórvarasamar enda myndu skattahækkanir gera stækkun kökunnar ómögulega. Og það væru bara öfundarmenn á vinstri vængnum sem vildu minni köku enda allir píetískir í eðli sínu. Það má kallast undravert hversu brauðmolamennirnir náðu langt í sínum málflutningi þrátt fyrir hin hrópandi ójöfnuð sem hreiðraði um sig í útrásarsamfélaginu. Vissulega stækkaði kakan en vandinn var sá að bitarnir, sem almenningur fékk, voru svo miklu minni og í sumum tilfellum engir  en þeirra er bárust mest á í skattfrelsinu. Ekki birtist þessi ójöfnuður einungis í mælingum félagsvísindamanna  og hagfræðinga, í svonefndum Gini stuðli, heldur blasti hann við á forsíðum slúðurblaða. Og samfélag ójafnaðar, eins og Palme benti á, er vont samfélag því það er ekki samfélag fyrir alla.

Ein birtingarmynd  þessa ójafnaðar var þegar brast á samkeppni milli útrásarvíkinga um hver gæti haldið veglegasta afmælið. Þannig fengu hinir farsælu Landsbankafeðgar rappara sem kennir sig við fjármagnsstærð,  50 cent, til að syngja fyrir gesti sína. Sá var frá Ameríku en þar eru menn komnir svo langt frá félagslegri sýn Palme að frægir rapparar eru í krafti auðs síns með gullgóma.  Myndir af þeim feðgum ásamt rapparanum með stóra vindla áttu að vera til merkis um yfirburði íslenska útrásarkerfisins. En í raun sýndu myndirnar félagslegt gjaldþrot samfélags. Síðar fór það í peningalegt þrot.

Núverandi ríkisstjórn hefur hækkað skatta á fjármagn upp í 20% en hlífir sparnaði hins venjulega launamanns með frítekjumarki. Það ásamt ýmsum öðrum breytingum á sviði skattamála hefur aukið jöfnuð í samfélaginu og einnig gert það mögulegt, þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður í ríkisfjármálum, fyrir börn að fara til tannlæknis með stuðningi frá hinu opinbera.  Þó það sé ekki stærsta mál kjörtímabilsins sýnir sá gjörningur ásetning stjórnvalda um að bæta samfélag okkar allra ekki bara sumra.

Huginn Freyr Þorsteinsson

]]>
http://smugan.is/2013/04/tennur-og-samfelag/feed/ 0
Tvær afasystur http://smugan.is/2013/04/tvaer-afasystur/ http://smugan.is/2013/04/tvaer-afasystur/#comments Tue, 23 Apr 2013 16:41:57 +0000 tka http://smugan.is/?p=99317 Grundvallaratriðin XL

Jóhanna Sigurðardóttir var tíunda konan sem Íslendingar kusu á þing á sextíu árum. Á undan henni komu sex Sjálfstæðiskonur, ein Framsóknarkona og tvær konur sem voru til vinstri. Önnur þeirra var Svava Jakobsdóttir sem ég var svo lánsamur að kynnast og hin var Katrín afasystir mín sem ég kynntist aldrei en mamma þekkti vel og sagði margar sögur af sem ég hefði auðvitað átt að taka upp á segulband meðan ég gat. Nýlega hef ég séð það á netinu að til er ennþá fólk sem talar um „kommana“ og segir síðan iðulega eitthvað mjög þroskað og málefnalegt í kjölfarið. Katrín afasystir mín var á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn og taldist því til „kommanna“. Eflaust hefur margt misjafnt verið sagt um hana á sínum tíma en nú er það allt gufað upp því að það er eðli þess sem er léttvægt að hverfa hratt.

Fyrir nokkrum árum sótti ég ágætan fyrirlestur um Katrínu frænku þar sem ýmsir ágætir læknar voru staddir en sjálf var hún læknir og aðeins í stjórnmálum meðfram því. Einn þeirra hafði þekkt hana mjög vel og var mikill Sjálfstæðismaður, sjálfur hreinn og beinn og vandaður. Hann var spurður að því hvernig hefði verið í þessari stétt þar sem Sjálfstæðismenn voru áberandi, hvort Katrín hefði ekki iðulega orðið fyrir aðkasti, ein af fáum konum og þar að auki kommúnisti. Nei, sagði hann, það þorði enginn að mótmæla henni. Þetta fannst mér einmitt hljóma eins og sú kona sem mamma hafði lýst. Katrín var ekki aðeins þriðja konan sem var kjörin á þing og sú eina til vinstri fyrir 1970, árið sem hún lést og ég fæddist. Hún var líka ein af fyrstu kvenstúdentunum; raunar í fyrsta stúdentahópnum frá MR sem í voru fleiri en ein kona. Hún var líka ein af fyrstu kvenlæknunum og sat í bæjarstjórn og er í seinni tíð frægust fyrir að hafa þorað að tala um getnaðarvarnir þegar þær voru tabú á Íslandi.

En ég átti aðra afasystur sem var ekki síður merkileg stjórnmálakona þar sem hún var fyrsta konan sem varð bæjarstjóri á Íslandi og raunar önnur af aðeins tveimur sem báru það starfsheiti fyrir 1990 þannig að Hulda frænka var lengi einstök í íslenskum stjórnmálum, alveg eins og Katrín frænka. Hún var líka vinstrisinnuð þó að hún teldist sjaldnast til „kommana“. Katrín var dáin þegar ég fæddist en ég man vel eftir heimsóknum til Huldu í Kópavoginn, meðal annars daginn sem Hekla gaus árið 1980. Þá hafði hún nýlega eignast pólaroidmyndavél og tók mynd af okkur sem síðan leystist upp á þrjátíu árum; þetta var ekki endingargott fremur en mörg önnur ný tækni

Þær áttu báðar feður sem hvöttu þær áfram og trúðu á þær því að feður skipta stjórnmálakonur máli. Báðar misstu feður sína um tvítugt. Mömmur þeirra voru báðar harðgerar og duglegar konur sem voru ekki minni skörungar en eiginmennirnir. Þær voru líka fyrirmyndir. Báðar afasystur mínar luku stúdentsprófi þegar það þótti allt annað en sjálfsagt. Önnur afasystirin var af meiri efnum en hin og fór í háskólanám. Hún giftist aldrei og var ævinlega í stjórnmálum á eigin vegum fyrst og fremst. Hin afasystirin var hluti af öflugu stjórnmálatvíeyki ásamt manni sínum.

Fyrir fjórum árum varð systir mín ráðherra, yngst kvenna hingað til og raunar hafði engin kona orðið ráðherra fyrr sem taldist til vinstri við Alþýðuflokk og Samfylkingu. Mig grunar að afasystur mínar hefðu verið ánægðar, ekki síst þar sem það blasir við að það er varla tilviljun að kona sem verður ráðherra svona ung eigi þessar afasystur.

Aðstæður í íslensku samfélagi voru skrítnar vorið 2009 og héldu áfram að vera það, sumpart eðlilega vegna ástandsins en sumpart vegna þess að hagsmunaaðilum hentaði að samfélagsumræðan væri sem neikvæðust á tímum vinstristjórnar. En ráðherrastarfið er reyndar aldrei létt og á ekki að vera og þess vegna fannst mér sanngjarnt að í þakklætisskyni lyki ég kjörtímabilinu á 40 greina flokki á Smugunni; samhengið kann að virðast allt annað en augljóst en það er þó ljóst fyrir mér. Það er ekki heldur létt verk að skrifa 40 greinar á tveimur mánuðum án þess að endurtaka sig mikið. Ef það hefur virst létt, þá er ég ánægður. Þetta virtist alltaf létt hjá línudönsurunum í sirkus Billy Smart.

 

 

]]>
http://smugan.is/2013/04/tvaer-afasystur/feed/ 0
Kaldar tær kjósenda http://smugan.is/2013/04/kaldar-taer-kjosenda/ http://smugan.is/2013/04/kaldar-taer-kjosenda/#comments Tue, 23 Apr 2013 16:23:36 +0000 tka http://smugan.is/?p=99304 Þjóðin er á gönguferð og ólíkir tíðarandar blása ýmist í bakið eða fangið. Sumir vilja snúa við – aðrir ekki, sumir benda í austur, aðrir í vestur, nokkrir til hægri og stöku til vinstri. Kosið verður um áttina 27. apríl 2013.

I. TÍÐARANDINN

Spár fyrir Alþingiskosningar 2013 gera ráð fyrir því að það sem var verði næst á dagskrá. Taumleysi og agaleysi er það sem var ásamt hroka, óbilandi bjartsýni og óbeisluðum krafti að ógleymdri óútreiknanlegri hegðun.

Efnishyggja, skammsýni, spilling, yfirstétt og eyðing auðlinda einkenndi það sem var – en það sem átti að koma í staðinn var víðsýni, heiðarleiki, jöfnuður, sjálfbærni og gagnsæi ásamt vináttu og samábyrgð. Þangað átti að minnsta kosti að stefna.

Óbilandi einstaklingshyggja, þrautseigja, forysta og yfirburðir geystust um eins og framtíðin væri þeirra. En eftir hengiflugið efldist virðing, umhyggja, nægjusemi og lýðræði. Tíðarandar takast á, það sem var togar í og það sem vill verða er ekki fast í hendi.

II. GÖNGUFERÐIN

Gangan á milli þess sem var og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks. Sundrung skapast í hópnum, sumir vilja snúa við, aðrir halda áfram og einhverjir eru áttavilltir.

„Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi – snúum við,“ segir þreytt göngufólk,“ „Sjáið þið ekki reykinn sem stígur upp af rústunum, þar er ekkert skjól – höldum áfram,“ segja aðrir í hópnum.

Áfangastaðurinn er handan við hæðirnar en of margt göngufólk virðist reiðubúið að snúa við á vaðinu yfir jökulána. Kjósa þarf um næstu höfuðátt í miðri á. Enginn vandi er að spá köldum tám kjósenda á bakkanum báðum megin árinnar en …

III. AFTURGANGA – FRAMGANGA

Framtíðin er val, hún er mótuð af þeim sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún er ýmist fram eða aftur, í hring eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Þjóðin er á vaði og lýkur ferðinni með kaldar tær á árbakkanum hvort sem hún snýr við eða ekki. Öðrum megin blána þær en hinum megin má nudda lífi í þær og fá blóðið til að renna á nýjan leik. En hvorum megin?

]]>
http://smugan.is/2013/04/kaldar-taer-kjosenda/feed/ 0
Feminine http://smugan.is/2013/04/feminine/ http://smugan.is/2013/04/feminine/#comments Mon, 22 Apr 2013 23:36:00 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99097 Grundvallaratriðin XXXIX

Þegar mamma mín dó skildi hún eftir sig úlpu sem hún hafði keypt en ekki náð að nota. Mér fannst synd að henda henni og mátaði hana og hún passaði. En þegar ég var búinn að ganga í henni um hríð sá ég að inni í úlpunni á bakinu var merki og á stóð: Feminine. Þetta var semsagt kvenúlpa og þá fór ég að hugsa hvort ég væri tæknilega séð orðinn klæðskiptingur. Ég fór að horfa laumulega í kringum mig og rannsaka hvort aðrir væru farnir að góna á mig eins og ég væri Þór mættur í jötnabrúðkaup í kvenmannsklæðum.

Ég sagði ýmsum frá þessu. Allir voru sammála um að það sæist ekkert á flíkinni að hún væri „feminine“; ýmir höfðu raunar miklar áhyggjur af því að ég hefði áhyggjur enda er fólk almennt umhyggjusamt. Eitt andartak íhugaði ég að kæra Red//Green fyrir vörusvik. Þeir stærðu sig af því að selja kvenlegar vörur en kvenleikinn væri þó hvergi sýnilegur. En á hinn bóginn hafði þessi ósýnilegi kvenleiki vörunnar þó gert hana heldur notadrýgri fyrir mig og það er alveg nóg um kvartanir og kveinstafi á Íslandi. Eða eins og Ketill Jensson söng í óperunni forðum: Kvartanir þínar og kveinstafir hrinda mér frá þér.

Nú var gott að vera ekki eins og Flosi á Svínafelli. Eins og allir muna fór hann alveg í kerfi út af silkislæðum sem Njáll ætlaði að gefa honum á Þingvöllum þegar ná átti sáttum fyrir víg Höskuldar Hvítanessgoða og hrapaði að þeirri ályktun að þetta væru kvenslæður þó að Egill Skalla-Grímsson sjálfur hefði átt silkislæður. Þessu lauk sem kunnugt er með því að Flosi kallaði Njál karl hinn skegglausa sem væri eins og kelling og Skarphéðinn kallaði hann brúði Svínafellsáss í staðinn. Af því mætti draga þá ályktun að það borgi sig ekki að fjargviðrast of mikið yfir því þó að í úlpunni manns standi skýrum stöfum: Feminine. Ef maður vill ekki enda sem brúður Svínafellsáss.

Þannig að ég er enn í úlpunni, engan veginn viss um hvort ég valdi með þessu miklum en ósýnilegum kynusla. Þetta er ágæt úlpa og hentar í flestum veðrum þannig að ég tími varla að fá mér aðra strax, einkum og sér í lagi þar sem það er enginn hægðarleikur að finna úlpur sem henta mínum þörfum og smekk nógu vel. Hver veit nema ég verði að lokum Njáll að viti með því að vera í þessari úlpu? Ég hef sjálfur fært rök að því að yfirburðir Njáls í Njáls sögu stafi ekki síst af því að enginn veit hvort hann er karl eða kona, eins og einnig var sagt um fuglinn Fönix í fornenska kvæðinu í Exeterbókinni. Úr því að skeggleysi Njáls reyndist vera styrkur og úr því Þór vann sigur á jötninum Þrym með því að dulbúa sig sem Freyja, hver er ég þá að hafna úlpu vegna orðsins Feminine?

Ég hef trú á þessari úlpu. Hún er ekki öll þar sem hún er séð og þar með finnst mér ekki útilokað að þetta sé galdraúlpa sem hafi svipuð áhrif og huliðshjálmur eða aðrir töfragripir. Allir guðir og merkilegar annarsheimsvættir þurfa að eiga eitthvað slíkt í sínum fórum til að ná yfirburðum. Kannski er úlpan Feminine einmitt það sem mig vantaði til að verða meiri og fullkomnari maður og ná meiri árangri í listsköpun minni. Ennþá hefur hún þó fyrst og fremst komið í veg fyrir að ég kvefist en það er ekki heldur svo ónýtt.

]]>
http://smugan.is/2013/04/feminine/feed/ 0
Aðgerðir og umbætur í mennta- og menningarmálum http://smugan.is/2013/04/adgerdir-og-umbaetur-i-mennta-og-menningarmalum/ http://smugan.is/2013/04/adgerdir-og-umbaetur-i-mennta-og-menningarmalum/#comments Mon, 22 Apr 2013 15:00:43 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99112 Á kjörtímabilinu höfum við Vinstri græn staðið fyrir fjöldamörgum umbótamálum á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem ég hef veitt forstöðu. Hér að neðan er listi yfir nokkur af þeim helstu

Aðgerðir gegn einelti

Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðherra, félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra skilaði skýrslu með 30 tillögum að samhæfðum aðgerðum gegn einelti í skólum og á vinnustöðum sumarið 2010. Verkefnistjórn á vegum fjögurra ráðuneyta, þ.e. fjármálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis vinnur nú að framkvæmd tillagnanna. Baráttudagur um þjóðarátak gegn einelti hefur nú verið haldinn tvisvar.

Aukinn jöfnuður með frjálsum hugbúnaði

Lögð hefur verið áhersla á notkun á frjálsum hugbúnaðai í skólastarfi. Með því að innleiða frjálsan hugbúnað er jöfnuður meðal nemenda og starfsmanna tryggður þar sem allir hafa aðgang að sama hugbúnaði án endurgjalds auk þess sem kostnaður við rekstur tölvukerfa skólanna lækkar.

Efling tónlistarnáms

Samkomulag var gert við sveitarfélögin með það að markmiði að efla tónlistarnám og gera tónlistarnemendum kleift að stunda nám sitt óháð búsetu. Samkomulagið felur í sér að ríkissjóður tekur yfir kostnað vegna kennslu í söngnámi á mið- og framhaldsstigi og hljóðfæranámi á framhaldsstigi og eykur framlög til málaflokksins um allt að 250 m.kr. á ári.

Efling vinnustaðanáms

Styrkir til vinnustaðakennslu starfsnámsnemenda á framhaldsskólastigi í fyrirtækjum og stofnunum voru veittir í fyrsta sinn í október 2011 úr tímabundnum sjóði. Í fyrra voru svo samþykkt lög um vinnustaðanámssjóð og er gert ráð fyrir að hann hafi árlega 150 m.kr. til umráða.

Ný lög um Ríkisútvarpið

Samþykkt voru ný lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Markmið laganna er að auka gagnsæi í rekstri Ríkisútvarpsins, auka lýðræði í stjórnarfyrirkomulagi , auka sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna við fréttir og dagskrárgerð og endurskoða hlutverk stjórnar og skipan hennar. Með nýjum lögum er einnig dregið verulega úr viðskipalegum sjónarmiðum við rekstur Ríkisútvarpsins, m.a. með því að aðskilja algjörlega viðskiptalega starfsemi frá útvarpsþjónustu í almannaþágu. Með nýjum samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu er hlutverk Ríkisútvarpsins sem einnar af meginstofnunum samfélagsins á sviði lýðræðis og menningar undirstrikað. Þá er tryggð aukin aðkoma starfsmanna og almennings að stefnumótun Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið mun auk þess vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna, jafnt innan stofnunarinnar sem og í dagskrá og heyrnarskertum verður veittur betri aðgangur að þjónustu Ríkisútvarpsins með aukinni textun forunninnar íslenskrar dagskrár.

Aukið jafnrétti til náms

Grunnframfærsla námslána Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) hefur verið hækkuð um 39,8% frá árinu 2009, eða 10,7% umfram verðlag. Þá hefur krafa um að námsmenn þurfi ábyrgðarmann til þess að fá lán frá LÍN verið afnumin. Frumvarp til nýrra laga um LÍN sem meðal annars felur í sér að hluta höfuðstóls grunnframfærslu námslána verði breytt í styrk var lagt fram á Alþingi en ekki samþykkt.

Fjölgun listamannalauna

Starfslaunum listamanna hefur verið fjölgað úr 1.200 mánaðarlaunum í 1.600, en þeim hafði ekki fjölgað í rúman áratug. Fjölgunin er í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar á eflingu skapandi greina. Þá hefur verið bætt við þremur launasjóðum, launasjóði hönnuða, launasjóði sviðslistafólks og launasjóði tónlistarflytjenda.

Hagræn áhrif skapandi greina metin

Gerð var rannsókn á hagrænum áhrifum skapandi greina. Leiddi hún m.a. í ljós að skapandi greinar veltu 189 milljörðum árið 2009 sem er á pari við áliðnaðinn. Í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar var lögð veruleg áhersla á að efla verkefnasjóði listgreina til að styðja betur við þessar greinar.

Heildarlöggjöf um fjölmiðla

Heildarlöggjöf um fjölmiðla hefur verið samþykkt í fyrsta sinn hér á landi sem hefur m.a. það markmið að stuðla að tjáningarfrelsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun. Með lögunum er komið til móts við helstu ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi lagaumhverfi fjölmiðla. Kveða lögin m.a. á um sjálfstæði ritstjórna og gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum auk þess sem sjálfstæð stofnun, fjölmiðlanefnd, hefur verið stofnuð til að annast faglegt eftirlit með fjölmiðlum og tryggja að þeir ræki af ábyrgð hlutverk sitt í lýðræðisríki og verndi almannahagsmuni. Hluti af löggjöfinni eru reglur um eignarhald á fjölmiðlum sem voru útfærðar  af þverpólitískri nefnd fulltrúa allra þingflokka á Alþingi.

Annað tækifæri til náms

Haustið 2011 hófst þriggja ára átak á vegum ríkisstjórnarinnar undir yfirskriftinni „Nám er vinnandi vegur“. Byggir það m.a. á reynslu Norðurlandanna sem hefur sýnt að afleiðingar atvinnuleysis eru alvarlegastar hjá þeim sem hafa hvað minnsta menntun. Markmið átaksins er að mæta ólíkum þörfum hópa sem hingað til hafa ekki fundið sig innan skólakerfisins, fjölga þeim sem ljúka framhaldsskóla- eða stúdentsprófi og efla möguleika þeirra til að sækja sér meira nám eða finna sér störf við hæfi. Átakið hefur gengið samkvæmt áætlun og hefur framhaldsskólanemendum fjölgað um 1.500 milli ára auk þess sem yfir 1.000 atvinnuleitendur hófu nám í skólum landsins haustið 20011. Framlög til menntakerfisins aukast um 7 milljarða kr. á þremur árum vegna átaksins. Ráðuneytið vinnur einnig að aðgerðum til þess að sporna gegn brottfalli úr framhaldsskólum í samstarfi við OECD, íslenska og norska sérfræðinga og á grundvelli nýrrar menntastefnu. Þá er einnig unnið að aðgerðum til lengri tíma tíma til tryggja tækifæri fólks á vinnumarkaði til þess að snúa aftur í nám.

Ný menntastefna

Í nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla birtist ný menntastefna. Meginmarkmið hennar er að rækta þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum sem fléttast inn í allt skólastarf: Læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.

Nánari upplýsingar um nýja menntastefnu má finna hér: www.namtilframtidar.is

Nýsköpunarsjóður námsmanna efldur

Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur verið þrefaldaður í samvinnu við Reykjavíkurborg. Sjóðurinn tryggir nú árlega um 350 áhugasömum háskólanemum sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarefni tengd námi þeirra.

Kennsluefni í kynjafræði í grunn- og framhaldsskólum

Tilraunakennsla er hafin í grunn- og framhaldsskólum á Kynungabók, kennslubók sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út haustið 2010, þar sem lögð er áhersla á gagnrýna nálgun á staðalmyndir og valdahlutföll kynjanna.

Táknmálið viðurkennt og staða íslenskrar tungu lögfest

Ný lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls festa í lög stöðu íslenskrar tungu og viðurkenna íslenskt táknmál sem fyrsta mál þess hluta heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og afkomenda þeirra sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta.

Almannafé í almannaþágu

Lög hefur verið sérstök áhersla á að breyta lögum, reglugerðum og samningum þannig að tryggt sé að það fé sem ríkið veitir til menntamála sé nýtt í almannaþágu. Þannig hefur reglugerð um starfsemi grunnskóla sem ekki eru reknir af opinberum aðilum verið breytt þannig að óheimilt er að nýta opinbert fé sem veitt er til þeirra til annars en starfsemi í viðkomandi skólum. Samningum ríkisins við einkarekna skóla á framhaldsskólastigi hefur verið breytt með sama hætti og er unnið að reglugerð. Í nýjum lögum um háskóla er kveðið á um að óheimilt sé að reka háskóla í hagnaðarskyni.

Efling leiksskólastigins

Í byrjun árs 2012 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til að til að gera tillögu um aðgerðaáætlun til að fjölga nemendum í leikskólakennaranámi og stuðla þannig að nauðsynlegri nýliðun meðal leikskólakennara. Starfshópnum var einnig falið að gera tillögur um aðgerðir til að  jafna kynjahlutföll starfsfólks í leikskólum. Hópurinn skilaði af sér um mitt ár og er nú unnið að framgangi tillagna hans í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Menningarstarf eflt um allt land

Með menningarsamningum mennta- og menningarmálaráðuneytis við landshlutasamtök sveitarfélaga hefur verið stuðlað að öflugu menningarstarfi um allt land. Einnig hefur verið unnið að því að gera styrktarsamninga við ýmsar menningarstofnanir víðsvegar um landið sem taldar eru njóta sérstöðu.

Átak í fjármálalæsi

Haustið 2012 hófst tilraunkennsla í sex grunn- og framhaldsskólum í fjármálalæsi. Tilraunakennslan byggir á starfi stýrihóps sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði um mitt ár 2011 um kennslu í fjármálalæsi. Markmið þessarar vinnu er að íslensk ungmenni séu markvisst frædd um fjármál og efnahagsmál og verði þannig hæfari til að takast á við eigin fjármál og skilja betur efnahagskerfi heimsins.

Efling rannsókna og tækniþróunar

Með fjárlögum ársins 2013 var stigið fyrsta skref íslensks háskóla- og vísindasamfélags út úr kreppunni. Með þeim voru framlög til samkeppnissjóða á sviði rannsókna og tækniþróunar hækkuð um samtals 1,3 milljarða króna og er sú hækkun hluti af fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Stuðningur við skapandi greinar stóraukinn

Kvikmyndasjóður og aðrir verkefnasjóðir á sviði skapandi greina hafa verið nær tvöfaldaður og nýir sjóðir á sviði hönnunar og myndlistar voru stofnaðir. Þá hefur rekstrargrundvöllur kynningarmiðstöðva skapandi greina verið tryggður með auknum framlögum og samningum til lengri tíma.

Átak í húsafriðun

Með skipun öflugrar húsafriðunarnefndar og nýjum áherslum ráðherra í húsafriðunarmálum hefur verið gert átak í friðun húsa. Í ársskýrslu nefndarinnar 2011 kemur fram staðfesting á þessu en þar segir að aldrei hafi fleiri hús verið friðuð en það ár eða samtals 35 hús víðsvegar um landið, þar á meðal mörg hús í miðborg Reykjavíkur.

Bætt starfsumhverfi íslenskra háskóla

Á kjörtímabilinu hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að styrkja og efla háskólastarf á Íslandi.  Alþjóðlegt gæðaráð skipað erlendum sérfræðingum í mati á starfi háskóla hefur verið stofnað og ber það ábyrgð á gæðamati og viðurkenningum námsleiða allra háskóla landsins. Með breytingu á lögum um háskóla var komið til móts við ábendingar sem fram komu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og aðdraganda bankahrunsins. Með lögunum var sjálfstæði háskóla styrkt og ábyrgð þeirra á starfsemi sinni dregin með skýrari hætti fram. Nýmæli í lögunum eru ákvæði um fræðilegt sjálfstæði háskólakennara, sem ætlað er að tryggja að þeir hafi sjálfstæði og frelsi til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt, án afskipta utanaðkomandi aðila. Þar segir einnig að viðfangsefni rannsókna og kennslu á vegum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða veita honum fé. Þá voru gerðar breytingar ákvæðum stjórnun háskóla með það markmiðið að efla lýðræðislegt stjórnunarfyrirkomulag þeirra óháð rekstrarformi, m.a. kveðið á um aðgang nemenda og kennara að stjórnunareiningum skólanna. Þá leiða lögin réttindi fatlaðra til háskólanáms í landslög í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007.

Samstarfsnet opinberra háskóla

Með Stefnu um opinbera háskóla sem sett var í ágúst 2010 var lagður grunnur að Samstarfsneti opinberra háskóla. Markmið stefnunnar er þríþætt: Í fyrsta lagi að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags. Í öðru lagi að tryggja að fjármunir til háskólastarfs nýtist sem allra best. Í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar á landinu. Við mótun stefnunnar var meðal annars tekið mið af skýrslu erlendra sérfræðinga sem unnin var fyrir mennta- og menningarmálaráðneytið veturinn 2008-2009. Í samræmi við stefnuna geta nemendur opinberu háskólanna sótt námskeið við þá alla óháð því í hvaða skóla þeir eru skráðir. Háskólarnir hafa nú einnig með sér samstarf sem miðar að aukinni samnýtingu kennslukrafta milli skólanna, samstarf um upplýsingakerfi- og stoðþjónustu auk sameiginlegs gæðamats. Með breytingu á lögum um opinbera háskóla í apríl 2013 var Samstarfsnet opinberra háskóla fest í sessi.

 

Katrín Jakobsdóttir

]]>
http://smugan.is/2013/04/adgerdir-og-umbaetur-i-mennta-og-menningarmalum/feed/ 0
Skuldir heimilanna http://smugan.is/2013/04/skuldir-heimilanna/ http://smugan.is/2013/04/skuldir-heimilanna/#comments Mon, 22 Apr 2013 13:23:17 +0000 ingimar http://smugan.is/?p=99115 Flokkur sem beitir sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir alræði peninga og markaðshyggju hlýtur að leggjast gegn því óréttlæti sem býr í íslensku verðtryggingunni þar sem aðgerðir á peningamarkaði geta lagt líf heilu kynslóðanna í rúst. Í samfélagi sem reist er á grunni almannahagsmuna og réttlætis gengur ekki að fjármagnseigendur séu tryggðir fyrir áföllum í hagkerfinu en almennir borgarar beri einir áhættuna og kostnaðinn. Því þarf að endurskoða verðtrygginguna frá grunni og leita leiða til að afnema hana án þess þó að stefna ævisparnaði eldra fólks í hættu.

Vandinn er margslunginn og Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur mótað leiðir sem heldur áfram að mæta þeim hópum sem enn eru illa staddir á Íslandi.

a) Lánsveðshópurinn.  Bráðlega verða kynntar lausnir fyrir þá skuldara sem eru með lánsveð á húsum sínum og hafa því fallið fyrir utan aðrar leiðréttingar. Lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki hafa staðið gegn þessari leiðréttingu í langan tíma og niðurstaðan verður sú að leiðréttingin verður kostuð af mestu leyti af ríkisjóði.

b) Þeir sem fjármögnuðu húsin með sparnaði sem étist hefur upp.  Á línuritinu hér fyrir neðan kemur fram þróun íbúðarverðs í samanburði við launaþróun. Þar sést að þeir sem tóku húsnæðislán frá öðrum ársfjórðungi 2005 og fram til ársloka 2008 lenti illa í hruninu. Þar má tala um forsendubrest á húsnæðismarkaði þar sem húsnæðisverð var keyrt upp úr öllum hæðum. Hægt að færa niður hjá þessum hópi með eignarmörkum og reiknað er með að sú leiðrétting kosti 24 milljarða króna.  Með þessari aðgerð er jafnræði tryggt um leið og leitast er við að ná sátt við þá sem hvað skuldsettastir eru.

c) Að tryggja heilbrigt fjármálakerfi. Til lengri tíma þarf að tryggja að íslenskir lántakendur búi ekki við það lánakerfi að ábyrgð á lélegri hagstjórn og veikri krónu fari ekki beint á herðar skuldara. Sjálf hef ég skoðað verðtrygginguna út frá evrópskri löggjöf og er sannfærð um að hún er ólögleg. Ríkið ætti að hafa forgöngu um að hraða dómsmálum um lögmæti verðtryggingarinnar. Það er þjóðþrifaverk.

Yfirvöld þurfa að fara að taka yfir stjórn peningamála í landinu. Peningakerfið eins og önnur kerfi þurfa að nýtast samfélaginu betur. Það var viðtekin skoðun fyrir hrun að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að segja bankamönnum til verka. Þeir væru sérfræðingar á sínu sviði sem vissu hvernig best væri staðið að hlutunum. Hugmyndir sem endurspegla svo átakanlega vanmat á hlutverki stjórnmálamanna eiga að  heyra sögunni til.

]]>
http://smugan.is/2013/04/skuldir-heimilanna/feed/ 0
Píratar og beina lýðræðið http://smugan.is/2013/04/piratar-og-beina-lydraedid/ http://smugan.is/2013/04/piratar-og-beina-lydraedid/#comments Sat, 20 Apr 2013 10:24:22 +0000 tka http://smugan.is/?p=98981 Nokkur hluti kjósenda er upptekinn af Pírötum og stefnumálum þeirra en fyrsta mál á stefnuskrá þess ágæta flokks er beint lýðræði. Píratar nota kosningakerfi á netinu til þess að greiða úr ágreiningsmálum og komast að niðurstöðu og hafa stoltir boðist til að ljá það öðrum. Það er þó ekki svo að þeir séu að finna upp hjólið.

Nýafstaðnar rafrænar íbúakosningar í Reykjavík um verkefni í hverfum borgarinnar eru gott dæmi um þróun í þessa átt en þar voru verkefnin valin úr hugmyndum sem borgarbúar sendu inn á vefsvæðið Betri hverfi á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Notast var við rafrænt kosningakerfi sem Sjálfseignarstofnunin Íbúar hefur þróað. Þetta var í þriðja sinn sem rafrænar íbúakosningar eru haldnar í Reykjavík en í fyrra var notast við rafræn auðkenni í slíkum kosningum í fyrsta sinn á Íslandi en Þjóðskrá Íslands hefur styrkt verkefnið með ráðum og dáð.

Skömmu fyrir þinglok samþykkti Alþingi frumvarp sem ekki fékk mikla athygli en áhugafólk um beint lýðræði ætti að láta sig varða. Um er að ræða breytingar á sveitarstjórnarlögum sem veita heimild til rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár og miðar heimildin að því að styðja við þróun og framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum.

Starfshópur innanríkisráðherra

Forsaga þessa máls er sú að 26. júní á síðasta ári skipaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra stýrihóp um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hópurinn skilaði tveim megin tillögum í október s.l., annarsvegar um rafrænar auðkenningar á vegum hins opinbera sem innanríkisráðherra fól Þjóðskrá að framkvæma og hinsvegar um ofangreint frumvarp.

Lögin heimila innanríkisráðherra, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum X. kafla sveitarstjórnarlaga þannig að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Meginmarkmið laganna er að auðvelda sveitarfélögum að kanna vilja íbúa þeirra til ýmissa mála og um leið að auðvelda íbúum að hafa áhrif á stjórnun og stefnumótun viðkomandi sveitarfélaga.

Í sveitarstjórnarlögum sem Ögmundur Jónasson fékk samþykkt haustið 2011 og tóku gildi 1. janúar 2012 eru ákvæði um rétt íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélags. Þar er meðal annars fjallað um frumkvæði íbúa og rétt þeirra til að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um ýmis álitamál. Búast má við að þetta ákvæði verði til þess að íbúakosningum/skoðanakönnunum meðal íbúa í sveitarfélögum fjölgi umtalsvert á næstu árum.

Mjög ákveðin skref

Í innanríkisráðuneytinu fer nú fram vinna við reglugerð með lögunum en þar er mælt nánar fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænna kjörskráa en auðkenning kjósenda og umsjón kosningakerfanna mun verða hjá Þjóðskrá Íslands. Innanríkisráðherra hefur skipað þriggja manna ráðgjafarnefnd sem verður honum til ráðgjafar og fylgist með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænna kjörskráa sem og að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði.

Verkefnið mun ekki aðeins auðvelda íbúakosningar í sveitarfélögum heldur hafa í för með sér hagræði og hagkvæmni við hvers kyns atkvæðagreiðslur og ryðja braut fyrir innleiðingu rafrænna lausna við allar lögbundnar kosningar á Íslandi.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra hefur því stigið mjög ákveðin skerf í átt til beins lýðræðis en jafnframt því sem ofan er talið hefur hann staðið fyrir alþjóðlegum ráðstefnum og málstofum um hina ýmsu þætti lýðræðisins. Hann hefur fengið til liðs við sig innlenda og erlenda sérfræðinga til að fjalla um beint lýðræði, fjárhagsáætlun með þátttöku íbúana, barna og ungmennalýðræði, hverfalýðræði og svo mætti lengi telja en afraksturinn má sjá á irr.is og netsamfélag.is.

Þorleifur Gunnlaugsson

Höfundur er formaður stýrihóps Innanríkisráðherra um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði.

 

 

 

 

]]>
http://smugan.is/2013/04/piratar-og-beina-lydraedid/feed/ 0
Í sinni mynd http://smugan.is/2013/04/i-sinni-mynd/ http://smugan.is/2013/04/i-sinni-mynd/#comments Sat, 20 Apr 2013 09:00:47 +0000 tka http://smugan.is/?p=98876 Grundvallaratriðin XXXVIII

 Vae, puto deus fio, mun Vespasíanus Rómarkeisari hafa sagt áður en hann gaf upp öndina. Á fyrstu öld eftir Krist var til siðs að rómverska öldungaráðið lýsti látna keisara guði eftir andlát sitt. Síðan var hægt að biðja til þeirra eins og annarra guða. Það er vitaskuld ekkert fráleitara en þegar fólk hér á Íslandi og um alla Evrópu hét á heilagan Þorlák og aðra dýrlinga til árnaðar við guð. Þeir voru vitaskuld ekki beinlínis guðir og sá greinarmunur var mikilvægur en samt voru þeir menn sem höfðu breyst í yfirnáttúrulegar verur. Og sjálfur guð kristinna manna var líka maður, hafði snúið til jarðar í gervi Krists, manns og guðs. Eitt af kjarnaatriðum kristinnar trúar er að guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Sem þýðir auðvitað að guð er mannlegur og eins er maðurinn guðlegur og þannig er það ekki aðeins í kristni heldur flestöllum trúarbrögðum manna. Guð er maður og getur ekki verið annað. Annars hefðum við ekkert til hans að sækja.

Stundum kemur Vespasíanus mér í hug þegar ég segi yngri norrænufræðingum frá því að ég hafi þekkt ýmsa eldri norrænufræðinga sem nú eru látnir. Ég sé það á þeim að þeim finnst engu líkara en ég hafi snert guðdóminn, svipað og mér líður þegar ég hitti fólk sem þekkti Jón Helgason, Einar Ólaf Sveinsson og Sigurð Nordal eða jafnvel Finn Jónsson – ég nefndi aðeins karla hérna því að staðan var þannig í þeirri kynslóð en það sem ég segi hér á eftir er engan veginn kynbundið, enda guðir alltaf beggja kynja í fjölgyðistrú. Allir þessu ágætu norrænufræðingar og fleiri lifa áfram í sínum verkum eins og rómverskir guðir og þetta er alls ekki slæm tegund af guðum því að allir verðskulda þeir virðingu, burtséð frá því hvort það sé gagnlegt að heita á þá eða jafnvel færa þeim fórnir (það mætti þó vel reyna það fyrir próf). Í augum flestra ungra fræðimanna er hinn látni norrænufræðingur æðri vera, hefur yfirburði eins og guðum er eiginlegt. Og hinir látnu eru líka ósnertanlegir, eins og guðirnir. Kannski trúa fáir núorðið á himnaríki en örugglega fleiri að andi látinna norrænufræðinga lifi eftir þeirra dag, ekkert síður en Guð lifir í Biblíunni.

Þegar ég kom í fyrsta sinn sumarlangt á Árnastofnun voru þar sex aldraðir fræðimenn sem höfðu verið þar alla tíð frá því að Árnagarður reis. Fimm þeirra eru nú látnir en einn lifir enn. Yngra fólk sem kom þarna inn hlaut að bera óttablandna virðingu fyrir þessum mönnum sem allir höfðu þvílíka reynslu og þekkingu sem var fjarri því að vera hversdagsleg og þessari sérkennilegu nánd sem þeir höfðu við handritin. Vissulega voru þeir misvirðulegir og aldurinn hafði leikið þá misvel líka. Að skapferli voru þeir álíka ólíkir og Júpíter, Neptúnus og Merkúríus eða jafnvel Óðinn, Loki og Heimdallur. En í goðheimum er fjölbreytnin einatt mjög til bóta. Það þarf guði sem erfitt að átta sig á og aðra sem alltaf tala skýrt. Það þarf yfirvegaða guði og aðra sem eru uppstökkari og reiðari. Það þarf virðulega guði og aðra sem eru bernskari og skelmislegri. Hinn kristni guð gat verið einn en jafnvel hann þurfti löngum fjölbreyttan hóp árnaðarmanna sér til aðstoðar.

Í heimi fræðanna var og er varla hægt að umgangast þessa öldunga öðruvísi en sem Rómarkeisara að minnsta kosti og jafnvel sem ólympsguði þó að þeir sætu ekki á fjallstindi heldur á lítilli þröngri kaffistofu. Stundum eru fjallstindar óþarfir. Auðvitað voru þeir allir líka menn með sitt mannlega eðli en það gerir þá ekkert endilega að minni guðum því að guðir eru menn og í Biblíunni er manninum beinlínis bannað að trúa á guði sem ekki eru í mannsmynd. Og eftir að þeir hafa flestir safnast til feðra sinna og mæðra þá finnst mér að þeir hafi eiginlega verið guðir, að minnstu kosti engu ómerkari en Vespasíanus Rómarkeisari þó að hann hafi raunar verið hnyttinn á ögurstundu. Kannski ekki almáttugir (enda eru fæstir guðir það) en fullkomlega þess verðir að litið væri upp til þeirra og jafnvel trúað á þá, svona eins og hægt er.

Núna tilheyrir hann öldunum, sagði Stanton þegar Abraham Lincoln lést, sá bandaríski stjórnmálaguð sem á sitt eigið hof í Washington. Í hvert sinn sem mikill norrænufræðingur deyr finnst mér eins og guðunum hafi nú fjölgað um einn. Það er alls ekki slæm kennd.

]]>
http://smugan.is/2013/04/i-sinni-mynd/feed/ 0
Allir tattóveraðir á elliheimilinu http://smugan.is/2013/04/98670/ http://smugan.is/2013/04/98670/#comments Thu, 18 Apr 2013 15:02:31 +0000 tka http://smugan.is/?p=98670 Grundvallaratriðin XXXVII

Seinustu ár hafa elliheimili Íslands verið full af Bóbóum, Gógóum og Lólóum því að þessi gælunefni voru „í móð“ eins og ein ágæt vinkona mín segir (sem er sjálf algjörlega „úr móð“ eins og þið heyrið) á fyrri hluta 20. aldar og þá getum við farið að sjá fyrir okkur samsvarandi stofnanir eftir hálfa öld þar sem allir heita Íris Mist og Aron Freyr. Eins má ímynda sér að eftir enn lengri tíma verði allir tattóveraðir á elliheimilinu því að tattóveringar hafa breiðst hratt út um hinn vestræna heim – já, og ég geri mér alveg grein fyrir því að það er „úr móð“ að tala um tattóveringar heldur heitir þetta tattú hjá ungu kynslóðinni.

En tattóveringar eru samt ekki lengur einkenni glæpamanna eða sjómanna; fjöldamenningin hefur komið þeim í tísku, væntanlega vegna þess að hinn venjulegi maður vill gjarnan vera „svolítið væld en umfram allt snyrtilegur“ eins og það var orðað af Stuðmönnum forðum. Og kannski er glæpamaðurinn sjálfur kominn í tísku að minnsta kosti hjá þeim sem eru „virkir í athugasemdum“ hjá DV og lýsa því yfir að fólk sem ekki hefur fengið sakadóma hafi sennilega „ekkert gert“ (í merkingunni: aldrei misþyrmt neinum eða stolið neinu) í lífinu og sé augljóslega hinar mestu veimiltítur. En smákrimmavæðing opinberrar umræðu er þó of stórt efni fyrir þessa grein þó að málin séu sannarlega skyld. Ég treysti því að félagsfræðingar séu að lesa þennan greinaflokk og útdeila verkefnum til nemenda sinna í erg og gríð.

Þannig hefur tattóveringin smám saman misst allt gildi sitt sem vísbending um það hverjir séu í raun og veru sigldir og hættulegir. Það má þó áfram velta fyrir sér hvort einhver stéttaskipting komi enn fram í tattóveringum hér á landi en enn vantar þó grundvallarritið „Tattóveringar og stéttaskipting“ um það efni því að íslenskir félagsfræðingar eru feimnir við stéttaskiptingu sem umræðuefni, eins og þjóðin öll. Stéttaumræða fór auðvitað snarlega úr tísku á 9. áratugnum eftir að hafa verið mjög í tísku á 8. áratugnum og hefur síðan þótt hrikalega hallærisleg hér á Íslandi alveg fram á allra seinustu ár. Hins vegar hefur nokkur umræða verið um þetta í Bretlandi, einkum eftir að það uppgötvaðist að eiginkona sjálfs Cameron forsætisráðherra, þess snyrtilega íhaldsmanns, væri með tattóveringu. Einnig munu þarlendir lögfræðingar og læknar vera komnir með tattóveringar. Jafnvel hefur heyrst seinustu árin að þær séu nú farnar að þykja mjög ósvalar (eðlilega því að það sem frú Cameron gerir getur varla verið mjög svalt) og þá sé það einna helst til marks um hjarðeðli og sauðshátt að fá sér slíkt merki.

Skylt umræðuefni en ekki jafn afgerandi er umræðan um það hvort bæði karlar og konur raki líkamann neðan höku og miðað við það sem ég les í erlendum miðlum hefur það nú um hríð verið talið fylgja stéttum þannig að yfirstéttin raki sig síður annarstaðar en í andlitinu en þó hafi það heldur breyst með tattóveringarmenningunni því að hún haldist í hendur við rakstursmenningu. Eins og ýmsir muna fór fram umræða á netinu í fyrra um hvort raksturinn væri meira áberandi í Árbæjarlaug eða Vesturbæjarlaug en koðnaði snemma niður því að á Íslandi er opinbert leyndarmál að Reykjavíkurelítan búi öll í göngufjarlægð frá Melabúðinni, öfugt við landsbyggðarelítuna sem býr yfirleitt í Breiðholtinu eða Árbænum.

Það er óviðeigandi að komast að niðurstöðu um slík grundvallarmál í 500 orða grein en ástæða til að hvetja íslenska menningarfræðinga og félagsfræðinga sem eru iðulega mjög vel lesnir í kenningum Pierre Bourdieu til að rannsaka málið nákvæmlega, bæði í sundlaugunum og utan þeirra. Skortur á slíkum rannsóknum gæti bent til þess að líkaminn sé ennþá feimnismál hér á landi en þó finnst mér líklegra að stéttaskiptingin sjálf sé stóra íslenska feimnismálið, sennilega ekki aðeins vegna þreytu á dólgamarxisma 8. áratugarins heldur líka vegna framhaldslífs goðsagnarinnar um hið stéttlausa samfélag sem varð til í sjálfstæðisbaráttunni. Eða eins og einn ágætur þjóðhollur lagaprófessor sagði einu sinni við erlendan mann: Á Íslandi er engin stéttaskipting og það sést best á því að í kjallaranum hjá mér býr vörubílstjóri.

 

 

 

]]>
http://smugan.is/2013/04/98670/feed/ 0